Höfundarhillan

Vegna þess að ég fékk sjálfur fyrsta eintak af bókinni fyrir nokkru hef ég þurft að stilla mig um að birta mynd af höfundarhillunni minni en hún fer sístækkandi. Ég hef verið svo heppinn að hafa haft færustu kápuhönnuði með mér í liði og get hugsað til þess þegar ég lít augum höfundarhilluna en um leið ímyndað mér að ég hafi ekki til einskis lifað á þessari jörð.

Þarna má sjá 17 bækur með mínu nafni en tvær þeirra raunar svo þunnar að þær sjást varla. Mitt á milli Frétta frá mínu landi og kiljunnar Vonarstræti er Goðsögur sem kom út hjá Pastel haustið 2020 en bókina setti ég saman í fyrsta kófinu þegar Damóklesarsverð hékk yfir okkur öllum. Hugmyndin er þó mun eldri. Hinumegin við Vonarstrætiskiljuna er eina bókin mín á ensku sem kallast Legends og er þýðing á þeirri fyrrnefndu. Hafið samband við Pastel ef ykkur langar til að benda vinum sem ekki lesa íslensku á bók eftir mig.

Verða þessar bækur fleiri? Ég er sestur við enn eina sem ég gef ekkert upp um annað en að fyrsti stafurinn er P. Síðan er stefnt að því að ljúka Álfheimabálkinum sem á að verða fjórar bækur. Hvort eitthvað fleira verður skrifað fer síðan eftir hvort einhver vill lesa.

Previous
Previous

Fyrsta setningin

Next
Next

Vatn, jörð, loft, eldur