Fyrsta setningin

Í tilefni af því að ný bók er komin út langar mig að halda áfram þessu sjálfsfitli (mér verður hugsað til vinar míns sem eitt sinn stefndi af því að skrifa fræðiritið „Rúnk í íslenskri menningu“) og birta hér fyrstu línur úr eigin skáldverkum. Ég tek fram að ég tel mig ekkert afbragðsgóðan í list fyrstu setningarinnar og legg sennilega meiri rækt við fyrstu blaðsíðuna en fyrstu setninguna. En hér koma þær sem sagt. Nöfnin koma aftast til að viðhalda spennunni.

1. Hún sýndist róleg þegar þau stigu á land en var það ekki.

2. Þau óttast mig.

3. Hví stend ég hér einn? hugsaði Hárbarður og fylltist óvæntum kvíða.

4. Þau tjá sig með peningum, sagði hann.

5. Elísabet!

Hún sneri sér hægt og rólega við, af nákvæmni eins og í balletinum

forðum.

6. Svona er að vera glaður, hugsaði hann.

7. – Dauðans ófriður er þetta, krakkaskrattar! sagði frú Lune höstug.

8. Honum hafði varla komið dúr á auga um fjögurleytið þegar hann afréð að núna væri nógu skammt til morguns til að snúa sér að henni og gæla við hana, fyrst rólega en af sívaxandi ákefð.

9. Mig sundlaði þegar ég hallaði mér yfir borðstokkinn á Henriettu daginn sem við stigum um borð.

10. Sif bjó nálægt fegurstu strönd bæjarins og spásseraði þar á hverjum degi eftir liðlöngum göngustíg þar sem allir hegðuðu sér eins og í útlöndum, brostu við ókunnugum og buðu góðan daginn.

11. Maðurinn lá á bakinu. Alklæddur, örlítið glott í munnvikum, ósjáandi augun á stilkum.

12. Hann stóð lengi við spegilinn að máta föt, hárgreiðslur og svipbrigði.

13. Hólmar var gripinn eirðarleysi seinasta daginn sem hann lifði þó að hann hefði ekki minnsta grun um hvað í vændum var.

14. Hvað er ég eiginlega að gera hér? hugsaði Soffía.

Eins og sjá má hef ég ekki beitt öllum brellunum sem eru taldar upp á myndinni að ofan en þó má glöggt sjá einhverjar. Eins og einnig má sjá að það er engin sérstök regla í gildi hjá mér nema kannski sú að mér finnst ágætt að eitthvað mikilvægt komi fram strax í upphafi, eins og þeir sem hafa lesið þessar bækur munu átta sig á.

Vonandi hefur einhver sem ekki hefur lesið neina fyllst spennu við einhverja upphafssetninguna! Þess má geta að bókin sem hefst á kynmökum hefur selst einna best.

Hér eru þær taldar upp í sömu röð og fylgt var að ofan: Vonarstræti, Glæsir, Síðasti galdrameistarinn, Brotamynd, Útlagamorðin, Urðarköttur, Bölvun múmíunnar I, Tíbrá, Bölvun múmíunnar II, Goðsögur, Skollaleikur, Bróðirinn, Reimleikar og að lokum Risinn sem var að koma út.

Previous
Previous

Ljóskan

Next
Next

Höfundarhillan