Ljóskan
Netflix-kvikmyndin og skáldsagan Blonde eru femínisk verk og harkaleg viðbrögðin við þeirri síðastnefndu eru m.a. til marks um mikil átök innan femínismans um flestalla hluti sem við verðum líka vitni að bæði á netinu og í lífinu. Sannarlega er myndin löng og grimm og jafnvel klámfengin á köflum; hún er því eðlilega ekki allra. Hin tröllaukna skáldsaga Joyce Carol Oates sem hún er grundvölluð á og er henni sæmilega trygg (þó að mér finnist margt hafa notið sín betur í sögu en í kvikmynd) er þar að auki aggressív í sínum boðskap sem er sannarlega ekki allra. Samt er kannski einfeldningslegt hjá sumum gagnrýnendum að afgreiða bæði bók og kvikmynd þannig að Marilyn sé fórnarlamb sem hafi engin völd í eigin lífi. Enda fjallar skáldsaga Oates ekki aðeins um manneskjuna Marilyn heldur fyrst og fremst um táknið sem hún var: ljóskuna. Eðlilega veldur því myndin þeim sárum vonbrigðum sem hafa aðra sýn á hina dáðu leikkonu og hvernig eigi að sýna þá merkiskonu.
Það góða við skáldsögur er hversu virkur lesandinn er í merkingarsköpuninni og kvikmyndin á ekki sömu möguleika en þessi kvikmynd er þó að einhverju leyti aðdáunarverð fyrir miskunnarleysi sitt og hefur mörgum fundist nóg um, En þetta var sýn Joyce Carol Oates. Misnotkun er sterkt þema í skáldsögunni Blonde og að gefnu tilefni en þó ekki endilega þannig að Marilyn sé aðeins smættuð í fórnarlamb sem allir eru vondir við. Þvert á móti verður hún að hvalkynjuðu tákni nútíma kvikmyndafrægðar – bæði frægð og leiklist eru undir í þessu mikla verki. Mig minnir að Oates hafi sjálf líkt Marilyn (sem hún rannskaði vandlega þó að hún tæki sér samt ýmis skáldaleyfi) við hvíta hvalinn Moby-Dick í álíka bólginni skáldsögu Melvilles. Eins er Oates undir talsverðum áhrifum frá ævintýrum í Blonde eins og ýmsum fleiri bókum sínum og raunar líka hrollvekjum. Það skilar sér rækilega í myndina sem veldur gagnrýnendum miklum óþægindum.
Kannski eru það þessi óþægindi þeirra sem gera að verkum að mér finnst að myndinni hafi hugsanlega tekist ætlunarverk sitt.
Joyce Carol Oates er læsilegur höfundur en ekki þægilegur. Hún er feykilega afkastamikil, Trollope okkar tíma, flæðir yfir alla bakka, ég hætti að fylgja henni á Tístinu vegna þess að yfir mig helltust 40 tíst um Trump á klukkutíma alla daga og nætur. Hún hefur líka mikinn áhuga á óþægilegum hlutum og getur miðlað óþægindum á mergjaðan hátt. Þess vegna stóðu sennilega aldrei vonir til að saga hennar um Marilyn snerist um allt hið góða og fallega í lífi stjörnunnar — í kvikmyndinni er þáttur Kennedy Bandaríkjaforseta sérstaklega hrottalegur og greinilega lítið eftir af Kennedy-helgimyndinni sem ráðandi var um miðjan sjöunda áratug síðustu aldar.
Grimm og hörð og vonleysi ríkjandi. Ekki má gleyma því að konugreyið framdi sjálfsmorð 36 ára að aldri og það er ekkert grín að vera í þeim sporum.
En þrátt fyrir myrkrið markaði skáldsaga Oates um Marilyn Monroe rækilega viðhorfsbreytingu til hennar og til hins betra. Joyce Carol Oates tók ljóskuna grafalvarlega og það gerir kvikmyndin líka á sinn hrottalega hátt.