Dauði bolsjusadista

Sá frægi danski kommúnisti og satíristi Hans Scherfig (1905–1979) átti sinn sess í bókaskápum bernskuheimilis míns, þar voru einar sex af sjö skáldsögum hans og ein af þeim var Det forsømte forår (1940), stutt en hörð ádeila á menntaskólanám dönsku embættismannastéttarinnar frá upphafi 20. aldarinnar sem ég las ungur en hef ekki mikinn áhuga á að lesa aftur því að Scherfig gat verið ansi boðandi á köflum en aldrei sem í þessari bók. Ég mundi auðvitað líka eftir bíómyndinni sem sýnd var titluð Vanrækt vor í Háskólabíó í febrúar 1994 sem var raunar meira við mitt skap vegna þess að þráðurinn hékk betur saman þar. Bókin sjálf er hópsaga með lítt skýrum aðalpersónum og farið hratt yfir sögu en mörg þemu hennar fá meira pláss í myndinni sem var sýnd um daginn á DR (eru virkilega liðin þrjátíu ár?) og auðvitað ómótstæðileg fyrir mig sem er þó enn ekki farinn að sakna menntaskólaáranna sem söguhetjur myndanna rifja upp í þessari sögu. Ég lærði ekki heldur latínu í menntaskóla (en bætti mér það upp síðar) og var ekki með neina kennara sem líktust lektor Blomme en Frits Helmuth fékk sjálf Bodil-verðlaunin á sínum tíma fyrir að leika þennan hræðilega kúgara. Blomme deyr í upphafi myndarinnar (og bókarinnar) eftir að hafa borðað eitraða bolsju en síðan kemur bolsjuát hans mikið við sögu. Í bókinni (og myndinni) kemur svo í ljós hver myrti hann og hvers vegna.

Núna þegar allir eru hættir að læra latínu (illu heilli) er auðvitað borið í bakkafullan lækinn með ádeilu á illan latínukennara en myndin er samt kraftmikil og ekki síst leikur Frits Helmuth í aðalhlutverkinu og hún er ágætur minnisvarði um þann tíma þar sem fullorðnir máttu berja börn og gerðu það svikalaust og nemendur voru dauðhræddir við kennara sína. Ýmist eru nemendur berjandi hver annan eða fullorðnir að lemja þá og þess á milli hæðast nemendur hver að öðrum eða hrekkja þá kennara sem þeir óttast minnst. Fremstur í flokki skólasadistanna er sjálfur Blomme sem er líka snjall áróðursmeistari og fær nemendur með sér í eineltið gegn þeim sem lítið kunna, hermir eftir þeim og gerir stöðugt grín að vaxtarlagi þeirra, einkum Thygesen sem alltaf er kallaður „Tykkesen“ eða „Crassus“ og Blomme líkir einnig á afar lærðan hátt við fíla Hannibals. Aftur á móti heldur Blomme í upphafi upp á hinn ljóshærða Edvard sem hann hefur augljóslega hómóerótískan áhuga á og sekt hans sannast eins og séra Friðriks þegar sadistalektorinn er sýndur fletta bók með myndum af allsberum rómverskum styttum. Aðrir nemendur hrekkja í kjölfarið Edvard fyrir að vera gæludýr latínusadistans en illu heilli eru táningsárin Edvard þar að auki erfið, hann fær bólur og um leið fer Blomme að ofsækja hann af slíkum ofsa að allri framtíð hans er ógnað.

Fram kemur að aðrir kennarar eru ekki viðlíka meistarar háðsins og listarinnar að deila og drottna og Blomme heldur æpa bara og öskra á nemendur milli þess sem þeir lemja þá og berja eða etja þeim saman. Nemendur þora ekki að hlæja í tímum hjá þessum verstu ofbeldismönnum en fá útrás með því að hlæja að þeim seinna og þeir kennarar sem sýna af sér hina smæstu veikleika eru hrekktir miskunnarlaust. Ekki verður séð að neinn þessara lærdómsmanna hafi minnstu hæfileika til að kenna þó að þeir kunni fag sitt vel. Yfir þessum fremur sorglega og fúllynda hóp trónir rektorinn sem leikinn er af sama leikara og lék oberst Hackel í Matador og fer með hlutverkið á svipaðan hátt enda er viðeigandi því að heragi ríkir í skólanum þar sem refsingar eru í aðalhlutverki og Blomme minnir kollega sína á orðtækið „oderint dum metuant“ (látum þá bara hata okkur ef þeir óttast okkur líka). Heima eru svo foreldrar sem eru lítið skárri því að í þessum heimi eru fáir skilningsríkir fullorðnir.

Öfugt við bókina setur myndin aðeins þrjá stúdenta í aðalhlutverk og snýst um brotgjarna vináttu þeirra. Þeir stofna leynifélagið manus nigra (svarta höndin) sem stendur fyrir hrekkjum og illgirni í garð kvalaranna frá kennarastofunni. Fyrra spennuaugnablik myndarinnar er þegar Blomme veikist og strákarnir fá mennskan kennara í nokkrar vikur sem lætur ógert að hæðast jafnvel að feitu strákunum. Það er hins vegar skammvinnur léttir því að síðan snýr Blomme aftur illvígari en nokkru sinni fyrr þegar allir voru farnir að anda léttara og hefur miskunnarlausa tangarsókn og þá kemur seinna spennuatriði myndarinnar þegar einn nemandi gerir uppreisn gegn grimmd hans og er fyrst næstum staðinn að verki en þarf síðan að leika rússneska rúllettu og þiggja hugsanlega eitraða bolsju frá kvalaranum. Hann kemst upp með það og Blomme fær sér að lokum bolsjuna. Sá seki næst aldrei og verður síðar dómari.

Previous
Previous

Dorrit og Hermann

Next
Next

Ali Baba og Aladdin eru (sennilega) 18. aldar frönsk skáldverk