Ali Baba og Aladdin eru (sennilega) 18. aldar frönsk skáldverk

Mig langar til að hefja leikinn með því að biðja lesendur að fyrirgefa þennan allt of langa æsifréttalega titil því að eins og allir vita koma sögurnar um Ali Baba og Aladdin úr 1001 nótt, þjóðsagna- og ævintýrasafni úr Mið-Austurlöndum sem á rætur að rekja til miðalda og sumar sögurnar eru jafnvel enn eldri. En það á ekki við um tvær af frægustu sögunum í safninu. Þær birtust fyrst í franskri þýðingu, Les mille et une nuits, contes arabes traduits en français, sem gefin var út í tólf bindum 1704-1717 og þýðandinn var Antoine Galland (1646–1715) og sagðist hann hafi fengið þessar tvær sögur frá sýrlenska sögumanninum Hanna Diyab sem var aðeins tvítugur þegar fundum þeirra Galland bar saman í París árið 1709. Fyrstu ummerkin um sögurnar eru í dagbókum Gallands þar sem hann hefur þær eftir Diyab og þær birtust fyrst á prenti á frönsku í þessari þýðingu.

Ekki veit ég um lesendur mína en mér kom þetta mjög á óvart og hef síðan farið að velta því fyrir mér hvort sagan um Aladdin og eins sagan um Ali Baba og ræningjana 40 séu e.t.v. ekki ævintýri eða þjóðsögur heldur samdar af Galland eða Diyab eða heimildarmanni Diyabs í upphafi 18. aldar. Óneitanlega reikar hugurinn til Remo Giazotto (1910–1998) sem „fann“ hinn fræga adagio Albinonis sem iðulega er leikinn þegar gengið er út úr jarðarförum en gat síðan aldrei sýnt fram á hvar þetta verk hefði fundist eða hvenær með þeim afleiðingum að margir telja nú að þetta fræga barokkverk sé alls ekki frá upphafi 18. aldar heldur miðri 20. öld, samið af góðu tónskáldi sem gat líkt eftir barokkstílnum á sannfærandi hátt. Eins falla sögurnar um Aladdin og Ali Baba vel að sögusafninu sem þær bættust við í upphafi 18. aldar en enginn vafi er samt á að þær eru ekki forn hluti þessa safns heldur bætt við það af Galland og hugsanlega eru þær samdar af honum eða meintum heimildarmanni hans Diyab.

Kannski þarf þetta ekki að koma á óvart. Þetta eru fjarska góð ævintýri sem bera handbragði listamanns skýrt vitni. Ég man enn þegar kennari minn í Langholtsskóla sagði okkur söguna um Ali Baba og ég heyrði fyrst töfraorðin „Sesam, opnist þú“ — líkt og orðið „mellon“ var „sesam“ frasi sem gat lokið upp huliðsdyrum. Ekki er síður minnisstætt að hafa séð myndina um Ali Baba með Fernandel í sjónvarpinu sumarið 1978 en hún var einnig til á fisjum fyrir forláta myndasjónauka sem maður eignaðist um svipað leyti. Líklega hef ég þó heyrt söguna um Aladdin enn fyrr því að mér finnst ég alltaf hafa kunnað hana en það var ekki fyrr en um daginn að ég heyrði um Antoine Galland, manninn sem annað hvort er höfundur beggja sagnanna eða ber a.m.k. alla ábyrgð á að heimurinn þekkir þær.

Galland var samtíðarmaður Perraults, höfundar Öskubusku, Rauðhettu, Þyrnirósar, Bláskeggs og Stígvélakattarins sem allt kunna að vera forn ævintýri en eru fyrst þekkt úr bók hans, Histoires ou contes du temps passé, avec des moralités (1697), og það er sú hábókmenntalega gerð sem við þekkjum öll. Galland reyndist sannarlega lítill menningarlegur eftirbátur Perraults og kannski eiga þeir báðir heima með H.C. Andersen sem höfundar bókmenntalegra undraævintýra sem margir rugla saman við raunveruleg ævintýri enda kjarninn a.m.k. stundum sóttur í þau.

Previous
Previous

Dauði bolsjusadista

Next
Next

Tvöfalt líf hins vinnandi manns