Tvöfalt líf hins vinnandi manns

Hin fleygu orð „What … is a … week-end?“ sem gamla hertogaynjan sem Maggie Smith lék í Downton Abbey rifjast stundum upp þegar ég velti fyrir mér hugmyndum nútímannsins um vinnuviku sem sjálfsagðan hluta lífsins en þannig hefur það ekki alltaf verið. Fátt fannst Rómverjum verra en skipuleg vinna og kannski ættu vinnuvikur ekki að vera sjálfsagðar. Sjónvarpsþættirnir Sundrun (e. Severance) voru einmitt helgarskemmtun mín um daginn en þar er fjallað um hóp fólks sem hefur látið sundra vitund sinni þannig að í frítímanum man það ekkert eftir vinnunni og í vinnunni man það ekkert eftir frítímanum. Lyftan úr vinnunni klýfur þannig vitundina í tvennt og úr verður sama manneskja sem er í raun tvær (kallaðar „innie“ og „outie“) þar sem engar minningar ferðast milli heima og einn vinnudagur virðist hefjast strax þegar næsta lýkur. Það eru mikil Matrix-væb í þættinum en með smá dassi af svartri kómedíu úr Mad Men og þátturinn er vissulega grafalvarlegur en þó stöðugt á barmi vinnustaðagrínsins.

Við fáum að fylgjast með fjögurra manna deild þar sem allir starfsmenn virðast hafa valið sjálfir þennan klofning; fimmti starfsmaðurinn er horfinn en staðgengill hans virðist ekkert of sátt við hlutskipti sitt og til stöðugra vandræða. Á vinnustaðnum er allt mjög bjart og hvítt og vinnan öll fremur vélræn en enginn veit um hvað hún snýst í raun (það er kallað fágun eða hreinsun en aldrei kemur fram hvers) og grunur vaknar snemma um að eins konar illur tilgangur sé á bak við allt saman þó að það sé engan veginn ljóst hver hann kunni að vera. Maður fær sterka tilfinningu fyrir innilokunarkennd starfsfólksins í gullfiskabúrinu og firringunni frá tilgangi og samfélagshlutverki vinnunnar. Meðal þeirra sem leika í þættinum eru John Turturro (sem auðvitað er stórkostlegur eins og alltaf), Christopher Walken og Patricia Arquette (brillerar líka) en leikstjórinn er sjálfur Íslandsvinurinn Ben Stiller. Þessi óvenjulega staða vinnumauranna varpar eðlilega fram ýmsum spurningum um frjálsan vilja og eðli tilvistarinnar svo að ekki sé minnst á rýmið sem stórfyrirtækin hafa tekið sér í mannheimum og allt í óvenjulega rólegum takti þannig að það er nægt rými fyrfir áhorfandann til að velta fyrir sér öllu sem hann er að horfa á.

Aðalpersónan er Mark Scout sem er fv. háskólaprófessor sem hefur tekið þennan kost vegna þess að hann saknar konu sinnar óbærilega mikið. En þegar vinur hans Petey hverfur úr vinnunni og birtist síðan í utanvinnutilveru hans líka og truflar hana fer hann að rannsaka tilveru sína og spyrja óþægilegra spurninga. Persónur þáttanna þekkjast ýmist í vinnuheiminum eða utanvinnuheiminum nema sumar virðast flakka á milli og á vinnustaðnum er fólk ýmist sundrað eða ekki og þessir ósundruðu virðast sumir hafa illt í hyggju og hinir jafnvel vera fórnarlömb þeirra. Sérstaklega grunsamleg er yfirmaðurinn Harmony Cobel sem líka er nágranni Marks undir öðru nafni og hann þekkir hana auðvitað þar sem vitund hans er nokkurn veginn algerlega klofin og fyrirtækið leggur mikið á sig til að koma í veg fyrir að vitundirnar tvær sendi hvor annarri skilaboð.

Mér var bent á þennan skemmtilega ódramatíska, oft fyndna en afar skuggalega þátt af heimspekilega þenkjandi vini og hann virtist meira af því tagi sem pabbi hefði haft gaman af en ég (minnir t.d. smá á bækur Ira Levin sem voru til heima) en eftir fremur dauflegt áhorf í janúar var hressandi að glíma við flókna áhugaverða og launfyndna sögu þar sem mikið er undir án þess að lætin séu mikil. Við þekkjum öll glímuna milli vinnu og einkalífs og hugmyndafræðina um að þetta tvennt eigi að vera aðgreint en mér sjálfum hentar betur að hafa skilin loðin og meta vinnuna eftir árangri fremur en tímum sem fóru í hana. Það virðist líka vera niðurstaða þáttanna að sundrunin sé illmöguleg.

Previous
Previous

Ali Baba og Aladdin eru (sennilega) 18. aldar frönsk skáldverk

Next
Next

Grámyglur tvær