Grámyglur tvær
Ein áhugaverðasta íslenska bók seinasta árs barst mér nýlega en það er Ritgerð um leiki eftir Jón Ólafsson úr Grunnavík sem Guðrún Kvaran og Svavar Sigmundsson gefa út ásamt Sólveigu Hrönn Hilmarsdóttur. Útgefandinn er félagið Góðvinir Grunnavíkur-Jóns sem er sagt vera afar kræsinn félagskapur sem sá er þetta ritar hefur aðeins fylgst með úr fjarska. Jón Ólafsson úr Grunnavík er sem kunnugt er einn merkasti fræðimaður 18. aldar, orðabókarmaður og handritafræðingur með meiru, frægur á Íslandi úr Íslandsklukku Halldórs Laxness og mun hafa verið leikinn eftirminnilega af Lárusi Pálssyni í glænýju Þjóðleikhúsi árið 1950 og sjálfur man ég eftir snillingnum Sigurði Sigurjónssyni í sama hlutverki árið 1985. Jón var auðvitað enginn skrípafígúra í raun en sérsinna og þekkt er kenning hans um „contractismus“ sem hefur verið mörgum íslenskunema gleðiefni í tímans rás.
Hin nýja leikjaútgáfa er lítil og látlaus bók en gullvæg fyrir margra hluta sakir. Ekki aðeins er hún áhugaverð fyrir alla vini Grunnavíkur-Jóns og áhugamenn um menningarsögu 18. aldar heldur líka alla sem áhuga hafa á leikjum barna í tímans rás en fæstir vita mikið um hvernig þeir voru á 18. öld og bókin er gullnáma upplýsinga um þá. Aftast er gagnleg leikjaskrá sem ég rannsakaði auðvitað forvitinn, fletti fyrst upp orðinu „tólaleikur“ eigandi von á einhverju sem kæmi mér á óvart en ekki ætla ég að segja hvað ég fann. Eins eru ýmsar lýsingar sem vekja forvitni fremur en að svala henni og því sér maður fyrir sér að bókin verði uppspretta frekari rannsókna á leikjum.
Áhugaverðast af öllu er kannski að rekast á leiki sem maður hefur sjálfur leikið í bernsku og hafði ekki minnsta grun um að væru frá 18. öld, m.a. sá er lýst er hér á myndinni að neðan en mamma kenndi mér upp úr 1970 og er ein af mínum elstu minningum. Með frekara hugvísindanámi eykst iðulega kaldhæðni manns og tortryggni á „gamla“ hluti sem reynast síðan iðulega fundnir upp á 19. öld eins og skautbúningurinn og aðrar taka svo miklum breytingum að þær verða óþekkjanlegar. En þessi leikur sem Jón lýsir er nokkurn veginn það sama og ég lék sem barn og því er ég nú dolfallinn yfir þessari ágætu bók.