Neðanjarðarlest í ræningjahöndum

Um daginn endurnýjaði ég kynnin við bandarísku kvikmyndina The Taking of Pelham 123 (1974) sem á íslensku hlaut titilinn að ofan en ég mun hafa séð hana í sjónvarpinu 15 ára. Walter Matthau leikur yfirmann í neðanjarðarlestalögreglunni sem fær það hlutverk að semja við gíslatökumenn sem ná undan sig lestarvagni og heimta lausnargjald. Helstu persónurnar eru ræningjarnir fjórir, gíslarnir 17 og ýmsar tegundir lestarvarða en myndin er grundvölluð á skáldsögu eftir John Godey sem hét réttu nafni Morton Freedgood (1913-2006) og notaði það nafn þegar hann sendi frá sér bókmenntir en ekki hasarbækur eins og þessa. Annars vann hann í kvikmyndabransanum og satt best að segja leynir handbragð höfundarins sér ekki því að í þessari óvenjulegu spennumynd er rými fyrir persónusköpun alls konar fólks, þar á meðal farþeganna og embættismannanna, kannski ekki mikið rými í hvern en alveg nóg til að við skynjum dýptina og fáum í leiðinni tilfinningu fyrir samfélaginu sem er New York 8. áratugarins. Það er einkenni afbragðshöfunda þegar lesandi fær tiflinningu jafnvel fyrir smæstu persónum.

Gíslarnir eru af ýmsu tagi, bæði konur og börn og meirihlutinn ekki af hvíta kynstofninum eins og hann er skilgreindur í Bandaríkjunum. Eftirlætið mitt er byttan, eldri kona sem er áfengisdauð út alla gíslatökuna og veit aldrei að hún var gísl. Embættismennirnir eru líka litríkur skari, sumir önugir og óhjálplegir, aðrir fífldjarfir og frekir og nokkrir eru drepnir vegna þess. Annars deyja ekki margir í myndinni, aðeins einn gísl, einn embættismaður, 1-2 laganna verðir og þrír af ræningjunum fjórum en þeir ganga undir nöfnunum Blár, Grænn, Brúnn og Grár. Leiðtogi þeirra er hermaður, annar er mafíósi sem hlýðir skipunum illa, sá þriðji vanur lestum og um þann fjórða vitum við sáralítið. Myndinni lýkur á leitinni að þeim eina sem sleppur lífs og hann fellur á því að vera kvefaður og persóna Walter Matthau hafði heyrt hann hnerra í senditækinu. Eftirminnilegur endir sem ég mundi vel eftir frá 1985 en pabbi hafði séð myndina áður og lumaði hróðugur á honum.

Það eru vissulega meðmæli með einni spennumynd að hún sé minnisstæð áratugum síðar og ég er ekki hissa, þetta er snjöll og vel skrifuð mynd sem er ekki aðeins með áhugaverðum persónum sem eru raunverulegt fólk (og maður vill helst að allir lifi af nema kannski helst Grár) og samfélagsmynd heldur er spennan þéttofin og minnir á Hitchcock á fjórða áratugnum. Í kjarna hennar er tímafresturinn sem gíslatökumennirnir hafa gefið og löggan er í vandræðum með að halda vegna umferðaróhapps því að löggurnar eins og allir aðrir í þessari mynd hafa enga ofurmannlega krafta. Ég sakna svolítið þessara daga þegar persónur í bíómyndum voru fólk en ekki ofurhetjur. Það eina sem er óvenjulegt við þær er að þær segja margar brandara en því trúir maður alveg upp á New York búa 8. áratugarins og m.a. á aðstoðarmaður borgarstjórans (leikinn af Tony Roberts úr Woody Allen myndunum) þessa óborganlegu línu „Ég segi brandarana en ekki þú“ — löggan áttar sig annars á því að borgarstjórinn er mættur þegar viðstaddir fara að púa sem lýsir stöðu stjórnmálamanna í New York árið 1974 eflaust vel.

Ég ætla sannarlega ekki að láta önnur 38 ár líða áður en ég sé þessa úrvalsmynd aftur (fann hann á Amazon Prime), mér sýnist að hún hafi verið endurgerð tvisvar síðan en á enga von á að þær kvikmyndir séu betri því að fólk kunni að gera bíómyndir á 8. áratugnum, sennilega hefur þessi list aldrei staðið betur en þá, og hafði meðal annars vit á að spara þarflasuar breytingar á söguþráðum bóka. Leikstjóri þessarar myndar var Joseph Sargent (hét í raun Giuseppe Sorgente) og var þetta hans helsti smellur.

Previous
Previous

Grámyglur tvær

Next
Next

Minningar um höfund sem þorði að vera fyndin