Minningar um höfund sem þorði að vera fyndin

Raunar er ég ekki viss um að fyrirsögnin eigi við því að Auður Haralds sem andaðist í upphafi þessa árs gat líklega ekki annað en verið fyndin en auðvitað þorði hún samt að gera það sem sumt fyndið fólk gerir aldrei og það er að taka stökkið inn í hið opinbera líf. Eitt af því sem mamma var ánægð með að hafa gert var að hafa hitt Auði Haralds á flandri um kerfið, hlustað á sögur hennar og sagt við hana „Þú ættir að skrifa bók“ sem Auður gerði síðan. Sennilega var mamma þó alls ekki sú eina sem sagði þetta við Auði. Auður varð ein af stjörnum bókaársins 1979 og hófst þá áratugur sem endalaus eftirspurn var eftir henni, m.a. í útvarpi og sjónvarpi. Í mínum huga eru þessi bernskuár mín góð ár í íslensku samfélagi og m.a. vegna þess að Auður Haralds naut sín í fjölmiðlum og við hin nutum hennar.

Ég las ekki Hvunndagshetjuna fyrr en löngu síðar enda er bókin sannast sagna afar „fullorðins“ og enn síðar las ég Læknamafíuna, þá tiltölulega nýkominn úr spítalalífi og fannst bókin góð en eiginlega alls ekki fyndin því að framkoma kerfisins við aðalpersónuna (Auði sjálfa) var aldeilis hræðileg og kannski ekkert einsdæmi og eftir reynslu af sama kerfi hló ég eiginlega ekki neitt en báðar þessar bækur eldast samt vel og ég las þær af miklum áhuga. Hvorug var til á mínu bernskuheimili en það var hins vegar Hlustið þér á Mozart? og ég heillaðist sem unglingur af þeirri óvenjulegu bók og frelsinu sem höfundurinn tók sér með spaugi sínu á kostnað tímarita og afþreyingabókmennta en bókin er eins konar meta-saga sem í eru aðrar sögur og sumar skemmtilegar, ekki síst með þátttöku lesandans sem er skemmtilega ófullkomin og handan væntinga höfundar.

Þessar útgefnu skáldsögur voru alls ekki einu afrek Auðar á þessu tímabili. Eins og allt Ísland sat öll fjölskylda mín límd við útvarpsþáttinn Án ábyrgðar í umsjón Auðar og Valdísar Óskarsdóttur á fimmtudagskvöldum haustið 1981. Eins var okkur börnunum falið að kalla á foreldra okkar þegar Elías, fyrirmynd annarra barna, birtist í Stundinni okkar skömmu síðar. Síðar datt Auður einhvern veginn úr tísku eða hafði ekki lengur áhuga á að skemmta þjóðinni en þar hafði hún sannarlega staðið sína vakt í upphafi 9. áratugarins. Að sögn munu fyllibyttur hafa áreitt hana bæði í síma og annarstaðar og hugsanlega dró úr áhuga á bráðfyndnum og greinandi lýsingum á samskiptum kynjanna og iðulega lævísri kúgun kvenna.

Þessi leiðinlegu viðbrögð sem hröktu þessa bráðfyndnu konu úr opinberu lífi eru umhugsunarefni og segja kannski eitthvað um smæð samfélagsins. Annað sem kannski skipti máli var að Auður var sannkallaður „original“ sem reis af sjálfri sér, var sennilega aldrei í bókmenntaklíkum og fann kannski aldrei staðinn sem henni leið eins og heima hjá sér í menningarlífinu. Það er líka gömul saga og ný að fyndið fólk er oft brothætt og viðkvæmt líka og húmor og sorg kannski nátengd í tilfinningalífi mannsins. Hvað um það ættu allir að nota tækifærið og kynnast bókum Auðar Haralds á árinu sem er að hefjast eða þá endurnýja kynnin.

Previous
Previous

Neðanjarðarlest í ræningjahöndum

Next
Next

Óttinn við nándina