Óttinn við nándina
Eins og ég sýndi fram á fyrir 23 árum með nákvæmum lestri (og vakti reiði og undarleg blaðaskrif á sínum tíma) fjallar frægasta Íslendingasagan, Njáls saga, meðal annars um hræðslu karlmanna við nánd sem hrekkjusvín og eineltispúkar nýta sér til að stía þeim í sundur þó að áherslan sé þar á að góð vinátta lifi allt af. Svipað efni er tekið upp í margverðlaunuðu belgísku kvikmyndinni Close sem fjallar um bestu vinina Léo og Rémi sem eru 13 ára. Þeir eru óaðskiljanlegir í byrjun og sofa m.a. stundum í sama rúmi og eru líkanlega nánir þó að það komi enginn beinn kynferðislegur áhugi fram í sambandinu sem gengur vel uns leiðindastelpur í skólanum þeirra fara að spyrja þá út í sambandið og í framhaldinu fara strákar að stríða þeim og draga karlmennsku þeirra í efa.
Léo reynist ekki þola þetta vel og fer að fjarlægjast Rémi, eignast nýja vini í íshokkíliði skólans og vera ítrekað hálf andstyggilegur við gamla vin sinn sem er frá upphafi afar viðkvæmur fyrir þessari höfnun, kannski enn frekar þar sem hann er einkabarn en Léo á bróður sem hann er líka náinn. Hvorugur þeirra er nógu þroskaður til að skilja hinn og hvorugur treystir sér beinlínis til að ræða málin sem Léo reynir þó einu sinni að gera. Allt endar þetta með miklum ósköpum og er sársaukafullt á að horfa. Maður veltir samt fyrir sér hvort fléttan sé ekki óþarflega melódramatísk í ljósi þess að höfnun af þessu tagi er og hefur verið alsiða og flestir lifa óhamingjusamir með henni í stað þess að grípa til þess sem Rémi gerir. En líklega er tilgangurinn að Léo horfist í augu við það sem hann hefur gert og eigi sér ekki viðreisnar von.
Að sögn er þessi saga grundvölluð á ævi sjálfs leiksjórans Lukas Dhont sem væntanlega er þá hliðstæða Rémi. Mér finnst atburðarásin svolítið fyrirsjáanleg en á sinn hátt sækir hún styrk sinn í að flækja ekki fléttuna um of og það sem heldur myndinni uppi er afburðaleikur táningaleikaranna Eden Dambrine og Gustav de Waele í aðalhlutverkunum, sérstaklega meðan vinslitin verða. Þeir túlka örvæntingu persónanna vel og eins verður snemma ljóst að þó að Léo svíki Rémi illa er hann ekki síður að svíkja sjálfan sig með framkomunni við vininn. Þar sem Léo er í fjölskyldu blómabænda kemur. manni hug kvæðið um urt og krús í skáldsögu Laxness. Með svikunum nær hann þó að tryggja sinn sess í heimi strákanna og finnst hann í fyrstu lifa góðu lífi en þó ekki alls kostar meðvitundarlaus um að hann hafi misst eitthvað dýrmætara sem enginn annar getur gefið honum.
Seinni hluti myndarinnar snýst um fremur sjálfhverfa reiði, vanlíðan og sektarkennd Léos þegar hann hefur endanlega misst vininn sem hann hafði áður hafnað og sækir nú sakbitinn og samanherptur í vörn sinni í foreldra Rémi til að öðlast fyrirgefningu syndanna. Hann handleggsbrotnar í hokkíleik en áhorfendur skilja að þau yfirborðsmeiðsl eru hjóm hjá andlega sárinu sem hann glímir við. Mikil skandinavísk eymd og depurð svífur yfir vötnunum í þessum hluta og þó að hann sé á sinn hátt sterkur líka er talsverð eftirsjá af de Waele og kraftinum sem fólst í samleik drengjanna. Rémi var kannski ívið áhugaverðari persóna en Léo en hvað honum gekk til er óráðin gáta í lok myndarinnar þó að Léo sé staðráðinn í að kenna sjálfum sér um.