Dorrit og Hermann
Mig minnir á að ég hafi áður nefnt á síðunni lestur minn á Stieg Larsson, Alan Hollinghurst og Kerstin Ekman þegar ég bjó á Strandboulevarden í Kaupmannahöfn. Sérstaklega haustið 1998 var ég sjónvarpslaus, netlaus og neftóbakslaus og keypti ósköpin öll af bókum sem ég las mig í gegnum og sendi svo heim til Íslands; danska póstþjónustan var svo frábær að þær komu heim á undan mér. Við sem lifðum öldina sem leið munum góðar póstsamgöngur. Ég var eiginlega ægilega metnaðarfullur á þeim tíma miðað við nú! Ein slík bók var skáldsagan Bang sem líkt og Atburðir við vatn fékk bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs en ég hef enn nokkurt álit á þeim verðlaunum þó að annars hafi ég misst trú á verðlaunanefndum (og löngu farinn að hafna setu í þeim). Þar sem ég hef frá barnæsku verið gegnsósa af danskri menningu, m.a. með miklum lestri danskra alfræðibóka, hef ég alltaf þekkt danska rithöfundinn Herman Bang en ég hafði ekki lesið verk hans á þessum tíma (mamma var meira fyrir Gustav Wied enda var hann fyndnari).
Bang er í endurliti höfundarins sjálfs sem staddur er í hinni örlagaríku lestarferð sinni um Bandaríkin árið 1912 en mjög lengi var uppi orðrómur um að andlát hans hefði jafnvel borið upp með saknæmum hætti; svo virðist þó ekki hafa verið en Bang var orðinn afar lúinn greyið. Willumsen fer víða um ævi Bangs og höfundarferil, kynnir til sögu margar frægur persónur sem hann hitti og sagan er svolítið eins og bútasaumur (ekki ósvipað bók Colms Toibins um Thomas Mann), mig minnir örlítið á kostnað þéttleikarans og innlifunar lesandans en kannski vinnur hún á við frekari lestur og þessi hefur alltaf verið aðferð hennar Dorrit. Það sem bókin gerði sérstaklega vel var að takast á við forboðið ástarlíf Bangs sem hafði ekki verið mikið rætt af innsæi árið 1998 en hún nær eðlilega ekki jafn vel utan um róttækar formtilraunir hans þó að sjálf sé Dorrit sams konar framúrstefnuhöfundur á öðrum tíma.
Eins og stundum gerist með konur tók það Dorrit Willumsen dágóða stund að slá í gegn, líklega á bók 15 eða svo. Ein skýring á því er að Willumsen er ekki höfundur sem auðvelt er að ná utan um enda umfjöllunarefnin fjölbreytt. Skáldverk hennar þóttu alltaf sérlega íhugul en um leið nákvæm í lýsingum sínum, höfundurinn svolítið eins og krufningarlæknir og hefði hugsanlega fallið í kramið hjá Zola. Bang var ekki fyrsta sögulega skáldsaga hennar en langflestar sögur hennar fást við nútímann; hún hefur alls ekki viljað láta ramma sig inn í eina bókmenntategund.