19. aldar hrútvíkkun

Um jólin horfði ég á hina sígildu kvikmynd John Ford, Póstferð (Stagecoach) sem ég hafði aldrei séð áður en í henni leika John Wayne, Thomas Mitchell, Claire Trevor, John Carradine, Andy Devine og fleiri. Wayne leikur sömu hetju og hann hélt síðan áfram að leika alla ævi, mann sem er svolítið hrjúfur og misjafn en fordómalausari en aðrir og í þessari mynd sýnir hann föllnu konunni (leikin af Trevor) sem aðrir sniðganga virðingu. Vegna fylgispektar John Wayne við Víetnamstríðið vill stundum gleymast hversu mjög margar persónur eru yfirlýstir andrasistar, auðvitað á hinn hefðbundna „white saviour“ hátt sem Hollywood var og er enn þekkt fyrir, þar sem hvíti björgunarvætturinn og manngæska hans er í forgrunni og um hana snýst sagan. Meðal annarra persóna eru fulli læknirinn sem Mitchell mun hafa sérhæft sig í, spilatöffarinn snyrtilegi sem John Carradine leikur en þessar persónur urðu ekki sömu klisjur og síðan ekillinn sem Andy Devine leikur og þekkist á skrækrámu röddinni sem Slim Pickens erfði síðar og manni fannst um tíma ganga aftur í annarri hvorri kúrekamynd. Margir farþegarnir í póstvagninum reynast hafa lík í lestinni, ekki síst svikuli bankamaðurinn sem sýnir líka af sér mikla hrútvíkkun (manspreading) snemma í myndinni eins og sjá má hér.

Þrátt fyrir nöktu indíánafordómana sem einkenndu sannarlega tímann er myndin stórkostleg, bæði tæknilega vel útfærð en líka full af samfélagslegum og jafnvel heimspekilegum þunga sem maður tengir við fæstar kábojmyndir. Samanlagt fela persónurnar í sér allar helstu vestragoðsagnirnar og þó að þær séu hugsaðar sem týpur halda þær sig samt ekki innan rammans heldur á hver þeirra eigin sögu og sýnir á sér ýmsar hliðar sem birtast aðallega í samræðum þeirra. Þrátt fyrir alla spennuna og óhjákvæmilegan byssubardagann að lokum eyða persónurnar í Póstferðinni mun meiri tíma í að ræða saman en að skjóta og slást. Þess vegna er myndin skemmtileg tilbreyting frá tölvuleikjadraslmyndum nútímans. Að lokum hefur myndast samstaða milli margra þeirra þrátt fyrir andstæður í upphafi. Fyrir sumum fer raunar ekki vel en þær sem hafa versta orðsporið í upphafi rétta sig við í lokin.

Póstferðinni er vitaskuld ætlað að ná utan um þá goðsögulegu fortíð sem fólst í að Bandaríkin þöndust í vesturátt. Þessi mikli áhugi á þessari tilteknu fortíð minnir talsvert á sams konar áhuga íslenskra síðmiðaldamanna á „söguöldinni“ sem römmuð var inn af landnáminu og kristnitökunni. „Vestrinn“ snýst líklega alltaf um epískt ferðalag í átt frá Atlantshafi að Kyrrahafinu þó að sjaldan sé það jafn augljóst og í þessari mynd. Hópurinn sem fer vestur er landnemaþjóðin sjálf sem á ferðareynsluna saman og í henni eru ekki aðeins hetjur eða byssubófar heldur líka pervisalegir fjölskyldufeður og fullir læknar, konur og karlar. Fólkið var auðvitað aldrei jafnt en í vestrinu er tækifæri til að endurskapa sig og slík endursköpun bæði útlagans sem Wayne leikur og föllnu konunnar Trevor er meginefni myndarinnar og „bandaríska draumsins“.

Ein varanleg áhrif Póstferðarinnar var að eftir hana voru vestrar ekki lengur álitnir innantómar spennumyndir heldur viðurkenndur skáldskapur, ekki síðri að inntaki en aðrar myndir. Í þeim var stundum fengist við fjölbreytt efni og persónurnar voru ekki lengur aðeins hetja á hvítum hesti og skúrkur á svörtum hesti heldur gátu þær verið flóknar og gallaðar. Þó að myndin eigi heima í þessari myndategund hefur hún sig hátt yfir hið almenna og minnir á að áhugafólk um bókmenntir og listir á aldrei að láta merkimiða stjórna sér.

Previous
Previous

Öðruvísi bernska

Next
Next

Dorrit og Hermann