Öðruvísi bernska

Olga Alexandrovna Markelova (f. 1980) er fyrst og fremst þekkt á Íslandi sem þýðandi nútímaskáldskapar þó að hún hafi líka ort á íslensku og dönsku og enn fremur er hún bæði fræðimaður á sviði norrænna bókmennta (ekki síst færeyskra og íslenskra) og stórmerkur höfundur á móðurmáli sínu rússnesku en verk hennar eru kynnt á þessari síðu.

Nýlega blaðaði ég sem endranær í gegnum gömul tímaritshefti – í íslenskum tímaritum seinustu tveggja alda býr mikill menningarauður og hver einasta lesandi manneskja á landinu ætti að lesa sig í gegnum nokkra árganga – og rakst þá á þetta áhugaverða ljóð Olgu í Tímariti Máls og menningar (2014).

Eins og sjá má að neðan fjallar ljóðið meðal annars um öðruvísi ættjarðarást, ástina til landsins þar sem maður ólst ekki upp. Í tilviki Olgu er það ekki Ísland nútímans heldur eldra, fátækara og trúverðugra Ísland 20. aldar sem sum okkar muna.

Það sem eftirsjá Olgu beinist einkum að eru ýmsar táknmyndir fortíðarinnar og hún færir sig síðan aftar í söguna, að landi sem er ósnert af ramma ritmenningarinnar. Það er eins og það Ísland hafi fyllri og dýpri merkingu fyrir henni en flestum íslenskum yngri skáldum í lýðveldi sem hefur slitið barnsskónum en gengur illa að komast af gelgjuskeiðinu.

Previous
Previous

Viðtökur og gagnrýni á miðli nýrrar aldar

Next
Next

19. aldar hrútvíkkun