Viðtökur og gagnrýni á miðli nýrrar aldar

Ég hef aldrei eytt mínum tíma í að leika tölvuleiki og finnst ég eiga talsvert inni fyrir það, verð því að viðurkenna að janúarmánuður fór alls ekki í lestur allra góðu jólabókanna sem bárust mér í jólagjöf og raunar yfirgaf ég aldrei miðbæinn eða vesturbæinn heldur lagðist ég í Þúskjá (Youtube á frummálinu) og mest í Hringadróttinssögu sem ég byrjaði að lokum að lesa á ný mér til skemmtunar og lauk við nýlega því að ég vil ekki spæna í gengum bók sem verðskuldar hæglestur en áður hafði ég ekki aðeins horft á þessar misgóðu 21. aldar kvikmyndir sem til eru eftir sögunni og eru magnaðar á sinn hátt en draga hana úr fagurbókmenntaheiminum yfir í afþreyinguna (en margir hrokafullir bókmenntafræðingar dæma bókina síðan eftir myndunum en hafa aldrei lesið). Þar að auki fór ég að horfa á alls konar viðtökur nútímamanna, m.a. fann ég rásina „Dudes from Middle-Earth“ á Þúskjá og horfði á allmargar 2 mínútna bíómyndir þar sem tveir táningspiltar (stundum ásamt vinum) endurtaka atriði úr myndinni. Þetta er afar kómískt efni, ekki síst þar sem þeir hafa vit á því að grínast alls ekki neitt heldur eru grafalvarlegir yfir öllu saman og það er mun fyndnara. Hafandi upphaflega kynnst Hamlet, Moby-Dick og Skyttunum þremur í myndaútgáfum get ég annað en látið mér vel líka við viðleitnina og það er einhver vottur af snilld í þessum örstuttu viðtökumyndum.

Samt hafði ég vissar áhyggjur af sjálfum mér eftir þessa reynslu – og varð líka um og ó þegar hinir ungu listamenn á bak við rásina kveðast heldur meira fyrir bíómyndirnar en bókina – þannig að ég ákvað að draga fram bókina sjálfa og auðvitað hina glæsilegu útgáfu sem ég gaf sjálfum mér til hughreystingar á covid-tímanum. Las hana síðan á kvöldin til að losna við óheilbrigð áhrif skjásins. Eins og allir vita sem hafa lesið bókina (þar á meðal þeir Vincent og Gabriel sem eru með rásina góðu) snýst hún alls ekki um endalaus bardagaatriði heldur er lýst ferðalögum um fjölbreytt landslag og einnig eru þar langir fundir og samræður um fornfræði og persónurnar æpa ekki og garga tilfinningar sínar heldur kynnumst við þeim hægt og rólega. Það veldur manni stundum áhyggjum að fólk sjái ekki muninn og hið sama átti við um Tolkien sjálfan og son hans Christopher sem neitaði jafnan að tjá sig um allar þessar aðlaganir.

En þrátt fyrir viðleitni mína til að sinna bókmenntum með því að lesa sjálfa skáldsöguna festist ég líka í svokölluðum „viðbragðamyndum“ þar sem áhorfendur horfa á myndir og þætti og bregðast við þeim og er þetta ekki slæm leið til að sjá aftur efni sem maður hefur áður séð á mun styttri tíma, fyrst fólki að horfa á Miðgarðsmyndir Peters Jackson en síðan alls konar öðru efni. Mig grunar að það séu einkum 12-13 ára börn sem horfi á svona efni en ekki virðulegir bókmenntamenn eins og ég (hef samt rætt þettq við a.m.k. einn kollega sem virtist þekkja efnið merkilega vel) en að sögn er eitt vinsælasta sjónvarpsefni Bretlands þátturinn Gogglebox sem mér skilst að sé fólk að horfa á sjónvarp og þegar best lætur (ekki alltaf!) nær þetta efni að vera eins konar bókmenntagagnrýni, kannski ekki á par við það sem ég les reglulega í London Review of Books en ekki síðra og jafnvel fremra en það sem flestir hinir satanísku íslensku fjölmiðlar bjóða upp á. Auðvitað er þetta efni fyrst og fremst heimild um áhorfendur og lesendur á háskólaaldri sem kalla efni frá 1960-1990 „gamalt“ sem það auðvitað er, það er aðeins mér sem finnst annað. Sumir hafa jafnvel uppgötvað svarthvítar myndir mikið undur (nema fólk hafi beinlínis alist upp við svarthvítt sjónvarp til 12 ára aldurs eins og ég).

Líklega hafa Íslendingar ekki í sér að bregðast svo ákaflega við leiknu efni að úr verði sæmileg afþreying, þessi myndbönd koma flest frá engilsaxneska heiminum þar sem allir eru miklu orðhvatari og fimari og kunna algerlega á formið, m.a. félagarnir Cam og Zay sem sjá má hér að ofan og ræða myndirnar alltaf saman meðan þeir horfa, munu vera staddir hvor sínu tímabelti þar vestra. Í langflestum tilvikum eru þessir áhorfendur ekki jafn gagnrýnir og ég hneigist til að vera, falla fyrir hinni listrænu blekkingu, halda með þeim sem á að halda með og þar fram eftir götunum. En allt er þetta samt lærdómsríkt fyrir áhugafólk um viðtökur og ekkert verra efni en Popptíví og annað drasl sem ég horfði á 2001-2003 og ég skrifaði á sínum tíma um lærða grein í Ritinu.

Fyrir utan stuttmyndir æskufólks og viðbragsmyndir reynist netið líka fullt af afar lærðum stuttheimildarmyndum um veröld Tolkiens og þar bar einna hæst 50 mínútna mynd um „bláu vitringana“ (ithyn luin) sem eru raunar ekki nefndir í sjálfri Hringadróttinssögu heldur aðeins í viðbótunum sem ekki fylgdu fyrstu útgáfunni en Tolkien ætlaðist þó alltaf til að fylgdu. Síðar hélt hann áfram að skrifa um þessa bláu vitringa og enn fremur eru til bréf þar sem hann tjáði sig um þá og öllu þessu eru gerð glögg skil í myndinni sem varpar þá líka ljósi á heim sem var alltaf í sísköpun og í raun engin „rétt gerð“ til af hálfu höfundar. Með því að skilja ýmis verk sín eftir óútgefin náði Tolkien því að skapa sagnaheim hliðstæðan við sagnaheim miðalda sem veitir lærðum Youtube-höfundum ærin tækifæri og okkur hinum sem erum að reyna að komast í gegnum janúar heilmikið að horfa á.

Previous
Previous

Gremja Gröndals, erindi á Álftanesi 17. febrúar

Next
Next

Öðruvísi bernska