Gremja Gröndals, erindi á Álftanesi 17. febrúar
Dægradvöl, sjálfsævisaga Benedikts Gröndal (1826–1907), er líklega það rit hans sem hefur notið mestrar virðingar og hylli almennings seinustu áratugi, þó að hann hafi á sínum dögum hlotið skáldfrægð fyrir önnur verk, einkum rómantísk ljóð. Ævisaga Gröndals var rituð 1893–1894 og 1904–1905 en kom fyrst út árið 1923. Hafði hann þá verið látinn í sextán ár. Um þá útgáfu sá Ársæll Árnason bóksali en textinn sem var gefinn út var styttri gerð sögunnar eða uppkast að henni sem Þórður Edilonsson tengdasonur Gröndals hafði látið í té. Lengri gerð var til í hreinriti sem hafði verið afhent Landsbókasafni í maí 1912 og skyldi vera innsiglað í 25 ár. Það handrit var nýtt við næstu útgáfu Dægradvalar, í fimm binda Ritsafni Gröndals sem Gils Guðmundsson sá um og kom út hjá Ísafoldarprentsmiðju 1948–1954 en Gils sá einnig um þriggja binda ritsafn (Rit) hjá Skuggsjá árin 1981–1983. Enn fremur var lengra handritið (Lbs. 1644 4to) nýtt við sérstaka útgáfu Ingvars Stefánssonar hjá Máli og menningu árið 1965, endurútgefin 2014. Fyrstu viðtökur Dægradvalar árið 1923 voru dæmigerðar fyrir það hvernig ritið hefur verið metið síðan. „[S]kemtileg bók“ segir Magnús Jónsson dósent í Iðunni og Sveinn Sigurðsson í Eimreiðinni segir hana „skemtilegasta aflestrar“. Báðir hafa þeir orð um fyndni höfundar, gáska, fjör og hnyttni, og þetta hafa síðan verið leiðarstef þegar Dægradvöl er nefnd. Um leið taka þeir fram að frásögnin sé hispurslaus. Sveini þykir „margt gálauslega sagt … og hefði gjarnan mátt sleppa því“ og Magnús lýsir lokaköflum sögunnar svo: „Að lokum verður hann svo gramur og fer að hafa alt á hornum sér, finst sér vanþakkað alt og enginn skilja sig. Hann einangrast meir og meir.“ Hér er þannig á ferð bók þar sem gáski og gremja fara saman. Greinilega þykir þessum fyrstu ritdómurum minna koma til gremjunnar og að hún hefði jafnvel mátt missa sín; eflaust hafa svipuð sjónarmið ráðið því að sagan var ekki gefin út fyrr en eftir andlát höfundar. Þar með er ekki sagt að Benedikt Gröndal sé ekki fyndinn og gáskafullur og raunar kemur gáskinn hér við sögu líka. Það sem fylgir á eftir er athugun á gremju Gröndal. Fyrst mun ég nálgast hana út frá eigin sjónarhorni 21. aldar manns sem er hvorki sérfræðingur í heimspeki né sálfræði en undir áhrifum frá hvoru tveggja. Þeim lestri verða takmörk sett en ég hyggst draga fram ákveðin einkenni textans sem benda öll í eina og sömu átt.
Gáski og gremja, gaman og alvara – það hefur ekki farið framhjá neinum að Benedikt Gröndal var mislyndur og þar fara saman kátína og beiskja. Flestir sem hafa fjallað um Dægradvöl nefna vægðarleysi Gröndals sem helsta kost eða galla verksins eða hvorttveggja. Þá hefur stundum verið minnst á dóma hans og lýsingar á nafngreindum samferðarmönnum sem sumir fá það óþvegið og ekki síst Björn M. Ólsen sem andaðist fjórum árum áður en ritið kom fyrst á prent. Hér verður litið svo á að harkaleg ummæli Gröndals um aðra séu ekki áhugaverð einvörðungu sem þáttur í rökrænni deilu þar sem beri að vega og meta málsatvik og finna síðan út hvor komist nær sannleikanum eða hafi rétt fyrir sér. Þvert á móti sé áhugaverðara að láta sannleikann liggja milli hluta og skoða tilfinningatjáningu Gröndals. Þannig megi skoða lýsingu hans á Grími Thomsen og Matthíasi Jochumsson ekki aðeins sem lýsingu á þessum stórskáldum heldur á Benedikt Gröndal sjálfum. Dægradvöl er tilfinningaþrungin frásögn um innra líf höfundarins. Gröndal dregur síður en svo fjöður yfir eigið hugarástand og hefur sjálfur áhuga á því. Þegar 21. aldar maður sem hefur kynnst sálrænum kvillum ýmist af eigin raun eða annarra les reiðilestra Gröndals, frásagnir hans af eigin óheppni og hvernig umheimurinn hunsar hann og svívirðir kemur orðið þunglyndi strax upp í hugann og raunar er erfitt að nálgast ritið öðruvísi þegar sú tilgáta er fædd. Þunglyndi má þá skilgreina sem kvíða, depurð og vanlíðan sem er orðið ráðandi sálarástand þannig að líta má á sem sjúkdóm. Þá er litið svo á að kvíði eða depurð stafi ekki endilega af þeim litlu og tiltölulega ómerkilegu atvikum sem vekja þessar kenndir í hvert sinn heldur eigi ástandið sér dýpri rætur, e.t.v. í missi sem hinum þunglynda hefur ekki tekist að vinna úr. Það er ómaksins vert að skoða textann stuttlega í leit að dæmum sem styðja þessa tilgátu og er því þá ekki haldið fram að hún sé endilega mjög frumleg. Þunglyndið verður fyrst í stað greint án tilvísana til fræðikenninga þó að þar með sé ekki sagt að ósérfróður nútímamaður geti verið með öllu ósnortinn af þeim. Óhætt er að viðurkenna strax áhrif skrifa föður sálfræðinnar, Sigmunds Freud, um sorg og missi. Í Dægradvöl kemur skýrt fram að Benedikt Gröndal gerir sér grein fyrir eigin sorg. Hann lýsir æskukveðskap sínum á dönsku með þessum orðum: „allt var það gagndrepa af sorgartárum og eymdarskoðunum – ég veit ekki af hverju“. Lykilorðin hér eru annars vegar sorg og eymd en hins vegar skilningsleysi á orsökum þessara tilfinninga. Gröndal kannast ekki lengur við að hafa haft ástæður fyrir sorg sinni og eymd á þessum tíma og hneigist helst til að gera lítið úr eigin fornu depurð – þetta er ekki óalgengt hjá þunglyndum og eitt af því sem reynt er að vinna með þegar þeir leita sér lækninga. Raunar kemur ekki fram hvort sorgin og eymdin í skáldskapnum endurspeglaði innra líf höfundarins á þeim tíma en er þó langlíklegast miðað við sálarástand hans síðar. En skýrt kemur fram að sorgin er ekki rökrétt; hana er ekki hægt að skýra á einfaldan hátt. Það á einmitt gjarnan við um depurð sem er á mörkum þess að vera sjúklegt; í nútímanum er litið svo á að það komi iðulega fram ótengt forsendunum fyrir því. Eins og fram kemur í sjálfshæðnum ummælum um gleymd kvæði æskuáranna er Gröndal iðulega gagnrýninn á sjálfan sig í Dægradvöl sem kann að vera þunglyndiseinkenni. Hann segir um sjálfan sig nýkominn frá Kaupmannahöfn: „Þótt ég hefði allmikla þekkingu af bókum, þá var ég lítt þroskaður í anda, ég hafði í rauninni verið eins og stórt barn“. Þeim sem þjást af depurð hættir til að setja fyrirvara við eigin verðleika og afrek en einblína á gallana. Þannig eru þeir oft vægðarlausir við sjálfa sig ekki síður en aðra. Þetta hefur mörgum lesendum Dægradvalar þótt kostur og gerir sannarlega Gröndal að geðþekkari sögumanni en hefur væntanlega ekki hjálpað andlegu ástandi hans mikið. Þegar Gröndal fer yfir eigið líf í Dægradvöl er hann undrandi yfir gleðistundum í lífi sínu: „Það var annars merkilegt, hvað vel lá á mér í öllu þessu basli; ég var alltaf glaður og kátur“. Það er vel þekkt einkenni þunglyndra að líta á gleði og kátínu sem frávik og tengja hana við horfna fortíð. Þannig verður hún hluti af trega og óskýranlegum ótta við nútíð og framtíð. Margir sem stríða við depurð trúa því að þeir séu hrakfallabálkar og að gæfan hafi snúið við þeim baki. Þá túlka þeir gæfuleysið á því sviði sem veldur þeim hryggð sem almennt gæfuleysi, jafnvel sem eðliseiginleika sinn. Þess vegna eiga þeir ævinlega von á áföllum og óheppni; depurðin kemur fram sem vantrú á eigin gæfu. Um leið hafa þeir algjöra vantrú á eigin færni á að takast á við mótlætið og eru almennt uppfullir af eigin vanmætti. Áður var getið hversu hissa Gröndal var á eigin gleði erlendis í æsku. Á sama stað lýsir hann furðu sinni á að hafa ekki lent í fleiri slysum eða óhöppum og hann hafi ekki einu sinni villst á gönguferðum sínum í Belgíu. Þessi undrun tengist því að hann telur sig almennt óheppinn, svikinn af gæfunni alveg eins og foreldrum sínum og Íslendingum yfirleitt. Þannig skýrist slakt gengi hans í skóla á því að hann er „oftast svo óheppinn, að ég kom upp í því, sem ég var lakastur í, enda var ég aldrei þauliðinn við skólalærdóminn, en las margt utan hjá“.
Flestir kannast við kvíða sem þunglyndiseinkenni; þeir sem hafa misst tökin mikla fyrir sér hversdagslega hluti og forðast það sem flestum öðrum finnst ekki tiltökumál. Gröndal ræðir þetta ekki sérstaklega í Dægradvöl en í Minningabók Þorvalds Thoroddsens er sagt frá því þegar Þorvaldur fékk skáldið til að leysa sig af sem náttúrufræðikennara á Akureyri. Þessu hafði Gröndal lofað en aftók síðan að fara og þó að Þorvaldur skýri það ekki þannig blasir við flestum nútímamönnum sem þekkja kvíða og sjúklegan ótta (fóbíur) að Gröndal hefur fengið kvíðakast. Þetta tengist ótta við ferðalög sem Þorvaldur lýsir svo: „Gröndal var bæði sjóhræddur og hesthræddur, vildi helzt fara alt fótgangandi og gekk altaf suður í Hafnarfjörð ... jafnan meira og minna kendur, sagði það hreinskilnislega að hann þyrfti að fá sjer neðan í því til hughreystingar á þessari glæfraferð“. Þetta hikuðu nútímamenn varla við að kalla sjúklegan kvíða eða fóbíu og tengja við þunglyndi þó að það sé vitaskuld ekki eini túlkunarmöguleikinn. Fleyg urðu orð Jean-Paul Sartré í leikritinu Huis Clos (1944) „L'enfer, c'est les autres“ (helvíti eru hinir). Einn helsti vandi þeirra sem eru þunglyndir er að þeir sækja í aðra til að fá ást, hvatningu, uppörvun og gleði. Stundum fá þeir það en oft veldur hitt fólkið vonbrigðum og við það dvelur sá þunglyndi. Í Dægradvöl ræðir Gröndal ítrekað um þann skort á ást og uppörvun sem hann saknar hjá sínum nánustu og öðrum. Á æskuárunum í Kaupmannhöfn er hann „melankólskur og dulur“ og bæti við: „ástar þurfti ég með, en ég hafði ekkert til að elska, ég gaf mig ekkert að kvenfólki … puntaði mig og dreif á götunum“. Enn uppteknari er hann af skorti á ást og hlýju úr foreldrahúsunum: „Þó að foreldrum mínum þætti vænt um mig, þá voru mér ekki blíðleg atlot sýnd né vinalegt viðmót; ég varð snemma einstæðingslegur, og hefur það ráðið allri stefnu minni sinna og verið orsök til þeirrar alvöru, sem mér er tamt að geyma með sjálfum mér, þó ég annars á seinni árum hafi orðið glaðlyndari ofan á. Ég fékk þráfaldlega að heyra, hvað ég væri ljótur, klaufalegur og latur, en hrós man ég ekki til, að ég fengi nokkurn tíma að heyra; sjálfsagt hef ég átt þetta álas skilið, en uppörvan hafði ég enga, hvorki þá né nokkurn tíma síðar á mínum eldri árum. Allt hvað ég hef gert, það hef ég gert alveg uppörvunarlaust.“ Það er dæmigert fyrir viðtökur Dægradvalar að stutt saga sem fer hér rétt á undan um hversu fúll og einrænn Benedikt Gröndal var og hvernig hann sagðist vera að smíða hlandfor þegar lektor kom aðvífandi er margívitnuð gamansaga en samhengið er þó fremur átakanlegt. Velta má því upp hvort orðin um að Gröndal hinn barnungi sé ljótur, klaufalegur og latur hafi tekið bólfestu í sinni hans og af því korni hafi síðan vaxið þunglyndið sem virðist gegnsýra Dægradvöl. „Allt hvað ég hef gert, það hef ég gert alveg uppörvunarlaust “: Þetta verður leiðarstef í Dægradvöl því að hvað eftir annað víkur Benedikt Gröndal að hvatningu sem hann hefur verið svikinn um. Þegar hann snýr aftur til Reykjavíkur árið 1850 segir hann um föður sinn: „samt vissi ég, að faðir minn hafði álit á mér niðrí, þó hann ekki færi hátt með það, því hann var aldrei vanur að hrósa okkur, enda er leiðinlegt að heyra hvernig foreldrar – kannske flestir – hrósa börnum sínum, oftast fyrir ekkert, eins og þau séu óviðjafnanlegt“. Almennt hefur Gröndal föður sinn á stalli og ver hann fyrir árásum annarra og er dæmigert fyrir þá sem þjást af depurð að verða uppteknir af látnu fólki sem þeir trega og hafa fyrir helgimyndir. Samt situr uppörvunarleysi föðurins í Gröndal. Þegar Gröndal fer að kenna í lærða skólanum fær hann svipaðar viðtökur: „Annars sýndu kennararnir mér engan hlýleik, þeir voru mér raunar ekki afundnir, en heldur ekki meir, var auðfundið, að þeir hlutu að láta sér ynda, að ég kæmi“. Hann virðist þrá ást og hlýju en fær ekkert af þessu og velta má því fyrir sér hvort hann hafi sjálfur spillt fyrir sér með feimni og hlédrægni, eins og stundum verður um þunglynt fólk sem er tortryggið og treystir ekki öðrum til að taka sér vel, ef til vill vegna óbeitar og fyrirlitningar sem það er sjálft haldið á sér. Önnur látin manneskja sem hann hefur á stalli er eiginkona hans, Ingigerður Zoëga. Þegar hún andast árið 1881 („sá engill, sem hafði staðið mér við hlið og varið mig“) er hann „orðinn einn og aðstoðarlaus, enginn hirti um mig, nema til að amast við mér, rífa mig niður og nota tækifærið“. Ef til vill er andlát hennar sá missir sem veldur því varanlega þunglyndi sem höfundur Dægradvalar er haldinn. Gröndal treystir sjálfum sér ekki til að standa einn, hann þráir aðstoð og hjálp en fær enga. Líf hans er eins og löng bið eftir uppörvun sem aldrei kemur. Eftir að hann er rekinn frá lærða skólanum fyrir óreglu árið 1883 starfar hann sjálfur og kveðst vera heldur iðjusamari en áður: „Ég hafði annars enga upphvatningu aðra en mína eigin lyst og áhuga, ekkert vinalegt orð“. Benedikt Gröndal bíður stöðugt eftir vinalegum orðum frá umheiminum en virðist aldrei fá þau. Líklegt er þó að sakir depurðar hafi hann einfaldlega ekki tekið eftir þeim eða þau hafi ekki nægt honum því að iðulega binda þeir þunglyndu vonir sínar við tiltekið fólk sem stendur þeim nærri (maka, börn, foreldra, góða vini) og vinahót annarra koma þeim að engu gagni. Áberandi er hversu mikið rými vinslit og ósætti fær í Dægradvöl og hve Gröndal ræðir ítarlega um það hvernig hann er útilokaður frá ýmsum hópum. Þetta á við um Kaupmannahafnarárin þar sem hann fellur úr klíku Jóns Sigurðssonar og þegar heim er komið fellur hann ekki heldur inn í þá „dönsku embættisfólksklíku“ sem sé ráðandi í Reykjavík. Eitt af því sem blasir við þegar Dægradvöl er lesin er hve illorður Gröndal er um ýmsa landa sína. Það sem hins vegar blasir við ef Dægradvöl er lesinn sem texti um þunglyndi er hversu mjög Gröndal einblínir á eigin einstæðingsskap og tregar misheppnuð samskipti sín við umheiminn. Eins og hann orðar það sjálfur í frásögn af deilum sínum og Konráðs Gíslasonar: „ég var lítilsigldur, umkomulítill og upp á ýmsa málsmetandi menn kominn“. Þegar öllu er á botninn hvolft snúast þessar deilur ekki um fólkið sem hann er ósáttur við heldur hann sjálfan, hvernig umheimurinn hafnar honum stöðugt og hversu vanmáttugur hann er að takast á við þá höfnun. Þeir sem stríða við depurð eiga oft von á öllu hinu versta og tekst að starblína á neikvæðu hliðina á öllu sem gerist en missa af því sem jákvætt er. Áhugavert er hve oft Gröndal minnist á hluti eins og sjálfsmorð eða svik í Dægradvöl, og jafnvel þegar fólk reynist honum vel sér hann vondu hliðina á því. Þegar skólapiltar sýna honum vinarþel og færa honum dýrt sigurverk þá gleymir hann að þakka þeim: „ég var annað hvort svo utan við mig eða svo hugsunarlaust, að ég þakkaði þeim ekki fyrir það – kom það ekki til af því, að ég misvirti gjöfina eða vildi ekki meta göfuglyndi pilta við mig, en slíkt fer nú stundum út um þúfur hjá mér“. Þannig snýst frásögnin af því að piltarnir heiðruðu hann og verður að sögu um hvernig hann gleymdi að þakka fyrir sig í eitt af þeim fáu skiptum sem honum var sýnd óræk velvild. Öll sambönd reynast full af erfiðleikum og sársauka og sá þunglyndi á það til að kjósa sér einstæðingsskap af ótta við höfnun umheimsins og sárindin sem fylgja þegar aðrir bregðast ekki við eins og hann hefði helst óskað.
Eins og ritdómarar bentu á strax árið 1923 er það einkum þegar kemur að lokum Dægradvalar og frásagnar hans frá efri árum ævinnar (eftir 1874) að vænisýkin fer að ná tökum á Gröndal. Sagan fer að snúast æ meir um þá harma sem hann á að hefna, þá smán sem honum hefur verið sýnd og þá illgirni sem hann hefur mætt. Hann hefur verið hunsaður og rægður og er margt tínt til, stórt og smátt. Og stöðugt ber hann sig saman við aðra sér ómerkilegri sem hefur verið hampað á hans kostnað. Margar fullyrðingar Gröndals um Íslendinga eru áhugaverðar: „Þetta viðmót Íslendinga við mig kom ekki til af því, að þeir ættu neins að hefna, því að ég hafði engum gert neitt illt eða óþægilegt, heldur af þeirri öfund og illgirni, sem lengst af hefur verið rótgróin í þjóðinni, og má sjá hana í fornsögunum og allt niður úr þeim“. Vænisýki getur sprottið af þunglyndi og það virðist liggja beint við að álykta að ofsóknarkennd Gröndals sé sprottin af depurðinni sem hrjáir hann á þeim tíma sem hann ritar Dægradvöl. Vegna þess að Benedikt Gröndal er fullur af sjálfsgagnrýni, sannfærður um ógæfu sína og upptekinn af því hvernig fólk hefur hafnað honum á hann von á höfnun alstaðar og hneigist til að ýkja allt mótlæti sem hann verður fyrir og taka því persónulega þannig að hann sér ekki mun á sérstakri illgirni og þeirri höfnun sem er hluti af eðlilegum samskiptum fólks: það hlustar ekki á hvort annað, svarar ekki bréfum, hefur stundum takmarkaðan áhuga á náunganum, sækist eftir því sem aðrir hafa og koll af kolli. Þannig verður Gröndal starsýnt á óvirðinguna sem föður hans hafi verið sýnd og telur það til árása á sig: „Hin yngri rithöfundakynslóð hér hefur jafnaðarlega reynt til að rýra föður minn hvenær sem færi hefur gefist á í ritum, og mun það að nokkru leyti vera gert til þess að óvirða mig óbeinlínis, sýna að ég sé ekki svo merkilegur, að ekki megi segja hvað sem vera skal“. Eins segir hann í löngu máli frá því þegar hann fær ekki „haud“ á meistaraprófi og ekki er sagt frá prófinu í blöðum eins og tíðkaðist en hann er síðan rukkaður um 20 krónur fyrir titilinn. Hann segist ekki hafa kært sig um „þetta helvítis humbug“ og hafa verið „guðsfeginn“ þegar ekkert varð úr en samt þykir honum ástæða til að rifja upp þessa smán mörgum árum síðar. Trúlofun hans og gifting vakti óánægju hjá Íslendingum í Höfn og ekki síst Ingibjörgu Einarsdóttur, konu Jóns Sigurðssonar. Hér kemur að máli sem er kannski þungamiðja í sorg hans, skammvinnu hjónabandi hans og sorginni sem þau Ingigerður deildu þar sem þau misstu öll börn sín nema eitt í frumbernsku. Í ævisögunni er Ingigerður upphafin en Gröndal er upptekinn af óvirðingu sem honum var sýnd um það leyti sem þau áttust. Vegna óánægju áhrifamikilla Íslendinga með hjónaband þeirra var niðurstaðan sú að Íslendingar „fyrirlitu okkur, og enginn óskaði okkur til lukku né minntist á þetta“. Þannig snýst sagan um trúlofun Gröndals síður um hamingju hans á þessu augnabliki en um þá óvirðingu sem honum var sýnd af því tilefni. Greinilegt er að sorgin hefur yfirtekið gleðina og hugsanlega á sú sorg rót sína í því hversu snemma hann missti Ingigerði og varð aftur einstæðingur. Gröndal ítrekar að hann standi einn. Á Íslandi er „engin staða til handa mér og enginn, sem ég ætti að“ og þegar hann fer aftur til Hafnar sinnast honum við Konráð Gíslason sem kallar hann „idiot“ á prenti og allir aðrir halda með honum: „ég stóð einn uppi eins og vant hefur verið um mig“ og síðan fylgir nmgr. þar sem hann hefur þetta að segja um íslenska blaðamenn: „Enginn hefur nokkurn tíma haldið með mér á prenti, en flestir rithöfundar og blaðamenn hafa gert eitt af tvennu: annaðhvort þvaðrað lítillega um mig með hnútum og skætingi, eða þá — og því nær ætíð — ekki með einu orði nefnt það sem ég hef gefið út“. Þetta er svo endurtekið nær óbreytt síðar: „Þegar ég hef gefið eitthvað út, þá hefur verið þögn í blöðunum … eða þá ég hef fengið hnútur og ónot“. Eins er Gröndal síðar hunsaður af samkennurum sínum í lærða skólanum: „annars fór ætíð svo, að legði ég eitthvað til eða léti einhverja meiningu í ljós, þá var ætíð siður að skeyta því ekki, en láta sem ég hefði ekkert sagt“. Hér er hætt við að Gröndal sé að ýkja það neikvæða viðmót sem hann hefur orðið fyrir. Velta má fyrir sér hvort öll þessi höfnunarkennd eigi sér rót í missi Ingigerðar. Um það er þó erfitt að dæma þar sem textinn í sinni endanlegu mynd er allur frá síðari árum Gröndals, eftir að hann varð ekkill. Margir þunglyndir nota samanburð til að sanna fyrir sjálfum sér hvernig heimurinn smánar þá og fyrirlítur. Þá er sjónum beint að öðrum sem séu ómerkilegri en njóti meiri virðingar vegna þess að sá þunglyndi sjálfur sé misskilinn og vanmetinn. Þetta stef er áberandi í Dægradvöl. Þegar Napóléon prins kemur til Íslands árið 1856 yrkir Gröndal til hans. Frásögnin af kvæðisgerðinni er ítarleg en eins og iðulega fylgir með lítil saga í lokin af því hvernig hann var smánaður: „Ekki sæmdi prinsinn mig neinu fyrir … en gaf ómerkilegum strákum og körlum stórgjafir; raunar ætlaðist ég ekki til neins, en ég hefði eins verðskuldað það eins og þeir“. Hér er á ferð sama stef og jafnan: vinsamlegt viðmót hefði ekki kostað hinn aðilann neitt en samt neitar hann þeim þunglynda um það. Í lok ævinnar er vænisýkin tekin að ná hámarki og þá sér Gröndal smán úr öllu, líka þegar honum er heiður sýndur. Þegar Jón Sigurðsson er jarðaður í Reykjavík í maí 1880 er Gröndal beðinn um að yrkja en hann lýsir því þannig: „Ekki var ég kvaddur til að yrkja við það tækifæri, því séra Matthías tranaði sér fram þar eins og annarstaðar og hafði Steingrím í eftirdragi – það var fyrst allra seinast, að ég var beðinn að yrkja eitthvað, sem var seinast sungið við gröfina – hefði ég að réttu lagi átt að neita því“. Hér er Gröndal hafður með en beðinn of seint þannig að sagan endar með því að snúast um háðungina sem honum er sýnd. Þegar Náttúrufræðifélagið er stofnað er Benedikt Gröndal lengi formaður þess en er gagnrýndur á fundi á gamals aldri: „Var þetta gert til að smána mig, því þeim var innan handar að nefna þetta við mig einslega“. Síðan fær hann ekki að rita náttúrusögu handa barnaskólum því að Bjarni Sæmundsson verður fyrri til og þessi ályktun er dregin af: „Aðferð sú var eins og vant var alla mína tíð hér, að bægja mér frá öllum bóklegum störfum og ritum, frá öllu, sem einhverja þekkingu þarf til“. Sá heilbrigði metnaður Bjarna að vilja sjálfur semja náttúrusögu er túlkaður sem árás á Benedikt Gröndal sem virðist ófær um að horfa á málið frá öðrum sjónarhornum en sínu eigin. Þunglyndi fylgir gjarnan óhófleg sjálfselska af þessu tagi þar sem sá mæddi telur öll mál – stór eða smá – snúast um eigin stöðu í heiminum. Það stafar endilega ekki af því að hann sé óvenju sjálfselskur að eðlisfari heldur kallar viðkvæmt sjálfsmat hans á að öll mál sé sett í þetta samhengi. Gröndal fær of lág laun fyrir allt sem hann gerir, hann er ekki beðinn um að þýða, hann er ekki kosinn í stjórnir, honum er ekki boðið í veislur, nemendur hans senda honum ekki eintök af ritum sínum. Þannig er mótlætið iðulega frekar hversdagslegt og smátt og jafnvel frekar almenns eðlis en Gröndal er umhugað um hverja smán og á valdi vænisýkinnar. Fyrirlitning samfélagsins staðfestir þá stöðu sem hann hefur í eigin huga. Jafnvel þegar hann fær riddarakross dannebrogsorðunnar segir Gröndal aðeins frá því til þess að láta þess getið að landshöfðinginn hafi ekki fært honum krossinn sjálfur heldur sent „vinnukonu sína með krossinn“ og skömmu síðar er hann tekinn að ræða illgjarna ritdóma um kvæðabók sína. Hann fær styrk af alþingi en það er ekki nóg því að einhverjir standa upp og mótmæla og eru þeir menn nafngreindir í bókinni en ekki hinir sem samþykkja styrkinn; þeir eru alveg gleymdir. Þannig er mótlætið sem Gröndal verður fyrir raunverulegt en oft hversdagslegt og lítilfjörlegt. Það ýkist allt upp í huga hans þar sem hann er haldinn depurð sem krefst þess að hann sé stöðugt á varðbergi og gæti að eigin æru.
Það sem ég hef sagt hér á undan um þunglyndi má líta á nánast sem almenna þekkingu nú á dögum; okkur þykir eðlilegt að greina hegðun eins og þá sem Benedikt Gröndal lýsir hjá sjálfum sér og sem skín úr texta hans og kalla hana þunglyndi. Samtíðarmenn hans og þeir sem skrifuðu um hann látinn notuðu hins vegar ekki slík hugtök og velta má fyrir sér hvernig á því standi. Í áhugaverðri bók er nefnist A Cultural History of Causality hefur Stephen Kern sýnt fram á hvernig orsakarskýringar í ritum leikmanna mótast einatt af ríkjandi vísinda- og heimspekikenningum hvers tíma. Mun ég gera litla tilraun af svipuðum toga því að sálarástand Benedikts Gröndals og skrif hans um menn og málefni í Dægradvöl má túlka á ýmsa vegu með hliðsjón af hugsanakerfum og skýringarlíkönum hvers tíma. Það sem vekur athygli í íslenskri umfjöllun 20. aldar um Benedikt Gröndal er að hugtakanotkunin er lýsandi en engar tilraunir eru til að skýra hegðun hans. Gott dæmi um þetta er Þorvaldur Thoroddsen sem lýsir Gröndal tvisvar sinnum í Minningabók sinni. Fyrst lætur hann það duga að Gröndal hafi verið „einkennilegur maður, eins og kunnugt er, gáfaður, dutlungafullur og skemtilegur, en ekki var hann að því skapi lagaður til kennslu“. Það sem mætti kalla þunglyndi er afgreitt með orðunum einkennilegur og dutlungafullur. Nákvæmari er lýsing hans í seinna bindi en svipuðu marki brennd: „Benedikt Gröndal var eins og kunnugt er mjög einkennilegur maður, tilfinningamaður mikill og skapbrigðamaður og fóru skoðanir hans á mönnum og málefnum mjög mikið eftir því, sem á honum lá í svipinn; mátti því ekki búast við stefnufestu í skoðunum, því þær breyttust dag frá degi, oft í þveröfuga átt. En ef maður þekti Gröndal og kunni lagið á honum, var hann hinn skemtilegasti maður, sem öllum þótti vænt um, er þektu hann vel, en til þess urðu menn að komast inn fyrir skelina, sem stundum var nokkuð hörð og óþjál. Það bar við að Gröndal var í fyrstu fúll, en altaf tókst mjer, þegar sá gállinn var á honum, að ná fýlunni úr honum.“ Þorvaldur Thoroddsen var vísindamaður eins og Sigmund Freud og af sömu kynslóð (fæddur 1855 en Freud árið 1856) en lýsing hans laus við áhrif frá austurríska sálfræðifrumkvöðlinum. Að vísu notar hann orðin tilfinningamaður og skapbrigðamaður og um leið blasir við að hann áttar sig á að ekki er endilega að marka alla orðræðu Gröndals, þ.e. að tjáning hans er ekki endilega rökræn heldur líka tilfinningaleg og mótast af líðan hans hverju sinni. Myndin af innra lífi Benedikts Gröndal dýpkaði lítið eftir því sem á leið 20. öldina; áfram héldu þeir sem um hann rituðu að lýsa fremur en að greina. Frásögn Árna Thorsteinssonar af áttræðisafmæli skáldsins þar sem fara átti blysför og taka ljósmynd fellur vel að þeirri mynd sem Gröndal sjálfur og Þorvaldur draga upp af honum. Gröndal er til skiptis „snúðugur og þurr á manninn“ og „hinn glaðasti“, hafnar ljósmynd og blysför en samþykkir síðan og hegðar sér að ýmsu leyti eins á þann hátt að nútímamaður greindi þar þunglyndi. Árni sjálfur áttar sig á að viðmót hans kunni að vera skel: „Held ég, að hann hafi tamið sér þetta hrjúfa viðmót og það hafi aðeins verið á yfirborðinu.“ Líkt og Þorvaldur tjáir hann sig aftur á móti ekkert um það hvers vegna Gröndal hafi þurft að sýna slík varnarviðbrögð og sagan fyrst og fremst tilfærð sem gamansaga um einkennilegan mann. Lengi áfram tíðkaðist að líta á Benedikt Gröndal sem kynlegan kvist fremur en mann sem leið illa. Steingrímur Matthíasson notar orð eins og „einrænn“, „ómannblendinn“ og „heimasætinn“ en þó að hann sé læknir sjúkdómsgreinir hann Gröndal ekki. Hið sama er uppi hjá teningnum hjá Tómasi Guðmundssyni sem kallar Gröndal „þennan furðulega mann, sem engum var líkur, hvorki að gáfum né geðslagi“. Einna ítarlegust er umfjöllun Ingvars Stefánssonar og þar gætir vilja til sálfræðilegrar túlkunar. Hann setur skapferli Gröndal í samhengi við kuldalegt uppeldi hans og gerir sér grein fyrir því að tómlætið sem Gröndal lýsir hjá samfélaginu í sinn garð er að einhverju leyti hugarástand hans sjálfs. Þó gengur hann ekki lengra í því að skilja skáldið en svo að við orðin einkennilegur (hjá Þorvaldi Thoroddsen) og furðulegur (hjá Tómasi Guðmundssyni) bætist núna undarlegur. Þannig virðast þeir allir álíta Benedikt Gröndal nánast handan skilnings. Hugtök úr sálfræðinni eru enn ekki notuð í greiningu á Benedikt Gröndal. Ingvar notar fúllyndi og tengir saman rómantískan skáldskap og veruleikaflótta.
Þannig einkennist umfjöllun um Benedikt Gröndal fram á okkar daga að því að framandgera hann sem einrænan furðufugl þó að allt eins sé hægt að líta á hann sem venjulegan mann þjáðan af sálrænum kvilla sem hrjáð hafa margan manninn, gáfaðan sem tregan, snjallan sem hæfileikalítinn, alla tíð. Orðið þunglyndi er þegar komið inn í íslenskt tungumál á þeim tíma sem Dægradvöl er rituð og finna má mörg dæmi ekki aðeins um orðið heldur ágætar lýsingar á sjúklegu þunglyndi í íslenskum dagblöðum og tímaritum frá lokum 19. aldar. En þeir sem fjölluðu um skáldið Benedikt Gröndal virðast fælnir við að setja hegðun hans í slíkt samhengi, allt fram undir lok 20. aldar. Raunar virðast þeir fremur fælnir við að setja Gröndal í nokkurt samhengi, annað en að hann sé undarlegur, furðulegur, einkennilegur og skrítinn. Ein skýringin kann að vera að Íslendingum hafi allt fram á áttunda áratug þessarar aldar og jafnvel lengur þótt sérviska og skrítni virðulegri en þunglyndi og sálrænir kvillar. Hinn undarlegi og einkennilegi einfari er öðruvísi en aðrir menn, rétt eins og skáld eru ólík öðrum mönnum. Geðræn vandamál hrjá hins vegar alla jafnt þó að það sé kannski ekki almennt viðurkennt enn í dag: jafnvel við sem erum fædd um 1970 könnumst við þá goðsögn að geðsýki og sálrænir kvillar séu einkenni listamanna og snillinga en geðveikir verkamenn eða pípulagningamenn fyrirfinnist ekki. Túlkendur Benedikts Gröndal fara þó ekki þá leið. Þeir forðast sálrænar túlkanir og eru á harðahlaupum undan allri túlkun á manninum. Gröndal er einkennilegur og furðulegur og þar með í raun handan skilnings eða skýringar. Freudísk sálfræði varð líklega áberandi viðhorf á Íslandi síðar en annarstaðar á Vesturlöndum. En fyrir hennar daga hefði vel komið til greina að ræða þunglyndið innan annars túlkunarramma því að hugtakið „rómantísk melankólía“ er vel þekkt meðal erlendra bókmenntafræðinga lengst af 20. aldar. Þórir Óskarsson, helsti sérfræðingurinn í skáldskap Benedikts Gröndal, ræðir raunar um tilvistarkreppu og heimshryggð (Weltschmerz) rómantískra skálda en það hugtak getur verið nauðsynleg útleið úr þeirri túlkun að Gröndal hafi fyrst og fremst verið einkennilegur og furðulegur maður. Ronald Grimsley hefur fjallað rækilega um áhrif rómantískra skálda á heimspekinginn Søren Kierkegaard sem hann telur einnig hafa þjáðst af þunglyndi í sálfræðilegum og læknisfræðilegum skilningi. Hann bendir á að bæði Chateaubriand og Kierkegaard hafi átt í tvíbentu sambandi við þunglyndið, litið annars vegar á það sem bölvun en hins vegar sérkenni gáfaðra og einstakra manna sem séu næmari og meiri tilfinningaverur en annað fólk. Þannig sé þunglyndið eins konar veruháttur, óhamingjusamasti maðurinn sé á einhvern hátt jafnframt sá hamingjusamasti. Ekki virðist ósennilegt að hugmyndir þeirra hefðu fallið Benedikt Gröndal vel í geð en þó veldur það nokkrum efa um að þessi túlkunarleið sé endilega betri en sú læknisfræðilega eða sálfræðilega að jafnvel þótt Gröndal hafi verið greindur maður og geri sér grein fyrir eigin skapferli stundar hann litla sjálfsskoðun í anda Kierkegaard í Dægradvöl sinni heldur fær fyrst og fremst útrás fyrir gremju í garð annarra. Hin leiðin sem unnt er að nota til að skilja andlegt ástand Benedikts Gröndal er nærtækari fyrir nútímamanninn. Sú leið hefur aldrei verið farin í íslenskri bókmenntarannsókn enda er sálfræðileg bókmenntagreining tiltölulega ný hér á landi. Á síðari árum hefur Dagný Kristjánsdóttir fjallað um þunglyndi og bókmenntir og flókið sambandi þessa tveggja í doktorsritgerð sinni Kona verður til (1996) og einnig í greinasafninu Undirstraumum (1999) þar sem lýst var einkennum þunglyndis, meðal annars út frá kenningum Freuds. Í ritgerð sinni „Trauer und Melancholie“ sem kom reyndar út sex árum á undan Dægradvöl (1917) ræddi Sigmund Freud um sorg og hvernig hún getur breyst í þunglyndi þar sem missirinn sem syrgjendur hafa orðið fyrir verður varanleg skemmd í sálarlífi þeirra. Þannig finnst þeim þunglynda að hann sjálfur hafi misst tilgang sinn og merkingu og leitar stöðugt staðfestingar á því. Einkenni þunglyndis eru þannig lágt sjálfsmat sem leiðir til kvíða og að telja sér allt ofviða. Einnig stundum sjálfsásakanir en undir niðri má iðulega finna reiði og árásargirni sem beinist gegn öðrum líka; stundum þróast þunglyndið yfir í oflæti. Hjá Gröndal kemur það oft fram sem vanmáttarkennd, kvíði, vantrú á eigin heppni og þróast út í vænisýki þar sem hann er misskilinn og vanmetinn af umhverfi sem leyfir honum ekki að njóta sín. Þannig virðist líklegt að reiði sem Gröndal beinir gegn öðrum í Dægradvöl kunni að beinast gegn honum sjálfum einnig: þegar dýpra er grafið sé vandi hans sá að honum þyki hann sjálfur einskisverður. Gremjan í Dægradvöl sé þannig tæki til að takast á við eigin tilfinningalíf. Hér verður látið staðar numið við þá freudísku túlkun. Um miðbik 20. aldar hefðu ýmsir erlendir bókmenntafræðingar leitað að rótum vandans svipað og Freud gerði og fundið hann jafnvel í samskiptum við föðurinn eða mótandi viðburðum úr frumbernsku. Hér var ætlunin ekki að skýra þunglyndið heldur aðeins að benda á það og draga fram að á sama tíma og bókmenntaleg sálgreining stóð í blóma erlendis (1930–1980) létu íslenskir fræðimenn sem fjölluðu um Gröndal og Dægradvöl sér nægja að gefa honum einkunnir eins og furðulegur og undarlegur og voru á harðahlaupum frá því að greina viðfangsefni sitt á fræðilegan hátt. Túlkunarleiðir hvers tíma og samfélags eru ekki síður áhugavert viðfangsefni en þunglyndir textar, og þessi athugun á viðhorfum manna til Benedikts Gröndal bendir til þess að íslenskir menntamenn hafi lengi verið fælnir við heimspekilega túlkun eða umræðu.