Óíslenskur trjágróður

Eftir talsverða erfiðleika við lestur í janúar var ég nokkuð stoltur af sjálfum mér að bruna í gegnum skáldsöguna Kastaníumanninn á tveimur dögum en hún var ríflega 550 blaðsíður. Höfundurinn er Søren Sveistrup og er þetta hans fyrsta skáldsaga en áður hefur hann skrifað handrit að vel heppnuðum sjónvarpsþáttum og mér fannst skáldsaga hans pínulítið í þá átt sem merkir ekki að hún sé ekki efnismikil. Hún er líka haganlega upp byggð og þó að persónusköpunin sé í anda afþreyingabókmennta eru persónurnar líflegar og trúverðugar og nógu sterkar til að draga mig í gegnum söguna. Það eina sem ég hafði á móti henni var að hún var óþarflega ofbeldisfull. Norrænir höfundar glæpasagna eru mikið gefnir fyrir pyntingar seinustu áratugina (og aflimanir í þessu tilviki) og ég er lítið fyrir slíkt ógeð þó að ég kunni vel við ráðgátur. Þannig að Sveistrup höfðaði bæði til mín og ekki. Þegar kom að seinustu hundrað blaðsíðunum las ég hratt sem ég geri oft þegar norrænar glæpasögur eru annars vegar. Þar virðist reglan sú að það þurfi að koma til fyrirsjáanlegs uppgjörs þar sem lögreglumennirnir og aðrar persónur sem lesendur eiga að tengja sig við lenda í lífshættu og það er ekki við minn smekk. Að vísu er smá snúningur í lokin en hann er alls ekki óvæntur. Það er hins vegar meginráðgátan og aðallega fannst mér flókið og þar með spennandi að tengja málin saman.

Bókina fékk ég lánaða og vissi af Netflixþætti um sama efni þannig að þegar ég las bókina ætlaði ég alltaf að horfa á þættina í kjölfarið. Bókinni er fylgt mjög vel enda er hún samin af handritshöfundi. Einstaka atriði úr bókinni eru einfölduð sem er óhjákvæmilegt í aðlögun og fellur ekki undir það sem ég kalla „þarflausar breytingar“ og er mjög andvígur. Þátturinn er áferðarfallegur eins og sjónvarpsefni nútímans er gjarnan. Mörg drónaskot. Tæknilegir yfirburðir sjónvarpsefnis frá 2021 yfir efni frá 1971 eru ótvíræðir en skipta mig engu máli. Tækni hjálpar við að segja sögu en gamli tíminn (jafnvel miðaldir) hafði líka sína tækni og hún dugði vel og fór vel (eins og Döffels) á sínum tíma. Bætti myndin einhverju við söguna? Eiginlega ekki, ég hefði alveg eins getað bara lesið bókina aftur en það var alveg þess virði að eyða einum degi í viðbót í hana og sviðsetningin var góð. Ekki held ég að það séu neinar kastaníur á Íslandi og ég hef satt að segja aldrei heyrt dönsk börn syngja um kastaníumanninn þó að Danmörk sé það land sem ég hef eytt næstmestum tíma í en ég hef heyrt að hann sé vel þekktur af þarlendum.

Aðalpersónur þáttarins eru lögregluparið Thulin og Hess. Þau eru bæði vel skrifaðar persónur, hann e.t.v. ívið klisjukenndari en hún. Það er mjög vinsælt í norrænum og sérstaklega dönskum sakamálasögum þessarar aldar að hafa persónur sem eru ráðherrar (bólar ekki á því í sakamálasögum annarra landa) og í þessu tilviki er það Rosa Hartung sem hefur einkum sinnt barnavernd en síðan er barni hennar rænt. Þá eru yfirmaðurinn Nylander og tæknimaðurinn Genz mikilvægar persónur og ágætlega samdar. Nylander er ekki sama fíflið og yfirmenn eru oft látnir vera og Genz er persóna sem hefur náð vel til manns í aukahlutverki áður en hann fær heldur veigameira hlutverk í lokin. Börn koma mikið við sögu og illa er farið með þau flest. Sama gildir um konur og þó að ég verði mjög vel við karlrembu Íslendinga og alls heimsins þessi seinustu ár eins og oft áður finnst mér því viss takmörk sett hve mikið af pyntingum á konum mig langar til að lesa um — og ekki er ég viss um að skáldlega réttláttur en fremur subbulegur dauðdagi morðingjans á trjágrein kastaníutrés bæti úr skák. Þess vegna er ég ekki handviss um að ég muni lesa næstu bók Svejstrup þó að mér hafi fallið vel við þessa og eins við þáttinn.

Ég hafði ekki sterklega á tilfinningunni að þetta væri fyrsta bókin í langri ritröð en Svejstrup er þó kominn efnilegar persónur í hendur. Þess má geta að lokum að bókin hefst á eyjunni Møn sem ég hef aldrei komið til (held að ég hafi einu sinni keyrt til Þýskalands gegnum Falster) en lærði snemma (með aðstoð krakkapúsluspils um Evrópu) að til væri slík eyja bæði á Englandi og í Danmörku og fannst stórmerkilegt.

Previous
Previous

Ekki hræddir við úlfa

Next
Next

Gremja Gröndals, erindi á Álftanesi 17. febrúar