Ekki hræddir við úlfa
Pabbi heitinn átti vin sem hét Úlfur og bjó í útlöndum en hringdi þegar hann var á landinu og eitt sinn svaraði systir mín og kom inn segjandi: „Það er úlfur í símanum“. Hún var um þriggja ára og afar hrædd við úlfa enda mikið hlustað á Pétur og úlfinn eftir Sergej Prokofjev á heimilinu og eldri bræður hennar áttu til að hræða hana með því að leika úlfinn. Mig minnir að platan sem við áttum hafi verið dönsk eins og svo margt á heimilinu þannig að mamma þurfti að þýða fyrst en auðvitað er ekki svo ýkja mikið að þýða, sagan er einföld og hljóðfærin segja hana. Eins og flestir vita snýst tónverkið um að kenna börnum á hljóma og hljóðfæri, svipað og Tobbi túba sem við fórum að sjá í Gamla bíói þegar ég var sex ára. Ekki hefur það fest sig í minninu en öðru máli gegnir um snilldarverk Prokofievs.
Nýlega komst ég að því að Петя и волк var samið árið 1936 og pantað frá tónskáldinu mikla af Natalíu Sats sem var frumkvöðull í sovésku barnaleikhúsi. Ég hafði farið að velta fyrir mér setningunni „Drengir eins og Pétur eru ekki hræddir við úlfa“ sem er svo einstök því að þar með er línan lögð frá upphafi; sagan snýst ekki um að Pétur læri neitt heldur er hann þvert á móti kennarinn. Afi Péturs kann að vilja loka sig inni frá úlfinum, hann getur orðið öndinni skeinuhættur og kettinum finnst vissara að flýja upp í tré en Pétur hugsar um það eitt að fanga úlfinn og koma honum í dýragarðinn þar sem slík skepna á heima – síðan eru líka veiðimenn með skotfæri en þeirra gerist ekki þörf. Þegar ég les um málið kemur í ljós að Pétur á að vera ungur félagi í frumkvöðlahreyfingu Leníns (Всесоюзная пионерская организация имени Владимира Ленина) og það skýrir vitaskuld hræðsluleysi hans. Hinir ungu frumkvöðlar hugsa eins og verkfræðingar: úlfurinn er fyrst og fremst verkefni til að leysa á sem hagkvæmastan og einfaldastan hátt og Pétur gerir það hugvitssamlega með hjálp kaðals og úlfsins sjálfs.
Helsti andstæðingur Péturs í verkinu er þannig í raun ekki úlfurinn sem er fyrst og fremst verkefni sem þarf að leysa heldur afinn sem er gamall bóndadurgur sem hefur ekki tileinkað sér hinn sanna frumkvöðlaanda ungu Bolsévikakynslóðarinnar. Afinn vill loka sig inni í girðingunni, er hræddur við úlfinn og hefur enga sérstaka trú á ungu kynslóðinni. Í lokin er hann stoltur af barnabarninu en þó nöldrandi um að kannski hefði þetta allt getað farið öðruvísi og miklu verr. Þetta er sannarlega ekki rétti bolsévikaandinn og þó að Pétur og afinn séu í sama liði er enginn vafi á hvor þeirra er gagnlegri þjóðfélagsþegn í hinum nýja byltingarheimi.
Þannig er sagan um Pétur og úlfinn í raun óaðskiljanleg frá samfélaginu þar sem tónverkið varð til en hún reynist hafa haft alþjóðlega og tímalausa skírskotun. Samt er áhugavert að hugsa um hana í tengslum við ungliðahreyfingu Sovétríkjanna sem var hliðstæð alþjóðlegu skátahreyfingunni en þó undir allt öðrum formerkjum. Sameiginlegt eiga þá báðar hreyfingarnar kjörorðið: Ávallt reiðubúinn! enda er Pétur það sannarlega í tónverkinu.