Gott að búa í Póllandi?

Eflaust hafa myndir eins og Listi Schindlers haft sín áhrif á mann því að það er á sinn hátt óvænt að sjá mynd um fangabúðir nasista þar sem allt er ekki grátt eða svart. Þannig er það ekki í The Zone of Interest. Þvert á móti setur fagurgræni liturinn svip sinn á myndina sem fjallar um notalega smáborgaratilveru Höss-fjölskyldunnar við hlið Auschwitzfangabúðanna sem fjölskyldufaðirinn stjórnaði lengst af með talsverðu verksviti og framkvæmdagleði. Þau búa í húsi sem gæti verið í Hlíðahverfinu. Föt hanga á snúrum, gestir ræða hagkvæmustu lestarferðir og börnin fá afar girnilegar afmælistertur. Frúin Hedwig á góðan pels og stjórnar vinnukonunum rösklega. Stöðug óp og skothvellir heyrast úr fangabúðunum í nágrenninu en hjónin sýna aldrei nein viðbrögð við þeim og aðrir sjaldan. Þau lifa fögru fjölskyldulífi og njóta lífsins í lautarferðum á ánni; eina vesenið er þegar líkamsleifar frá útrýmingarbúðunum menga hana. Rudolf Höss er mildur fjölskyldufaðir með frekar kvenlega og blíðlega rödd. Hjónabandið virðist í fullkomnu jafnvægi.

Dag einn kemur móðir frú Höss í heimsókn, gæðaleg kella. Hún dáist að hinum undursamlega garði dótturinnar en virðist aðeins óöruggari gagnvart hljóðunum. Í notalegri garðveislu færir Höss konu sinni þau ótíðindi að hann hafi verið hækkaður í tign og þau þurfi að flytja. Frúin tryllist og hann flýr hana. Hún skálmar á eftir honum full æsings og þau ræða stöðuna, enn og aftur undir skothvellum og ópum sem þau heyra ekki. Eftir þau áhrifamiklu rök konunnar að garðurinn hennar sé táknmynd hins nýja þýska „lebensraum“ í austri verður niðurstaðan sú að Höss flytur einn en heimilið verður eftir. Amman á að verða dótturinni félagskapur í staðinn en reynist ófær um að leiða hjá sér Auschwitzhryllinginn í næsta húsi og laumast burt að nóttu til eins og hrætt hetjubarn í ævintýri.

Höss virðist ansi blendinn þegar hann les ævintýrið um Hans og Grétu fyrir dóttur sína með tilheyrandi illum endalokum í bakaraofni en vinnur sjálfur að pöntun nýs líkbrennsluofns. Þó er afneitunin aðeins hluti tilverunnar hjá honum; vinnan hans snýst að vísu einkum um verkfræðileg málefni en hann situr síðar fundi um útrýmingu ungverskra gyðinga þar sem sérfræðiþekkingu hans er við brugðið. Hann lætur líka senda til sín stelpur til misnotkunar og horfir þannig framan í fórnarlömb sín. Firring hans kemur skýrast fram þegar honum leiðist í fínni nasistaveislu þar sem hann þykir greinilega ekki sérdeilis áhugaverður félagskapur og fer að velta fyrir sér bestu leiðinni til að drepa alla viðstadda með gasi. Frúin aftur á móti hegðar sér meira og minna eins og ósköp venjuleg húsmóðir sem sé alls ekki staðsett í útrýmingarbúðum og er greinilega sármóðguð þegar mamma hennar ræður ekki við umhverfið og fer. Eflaust er mörgum gagnrýnanda freistað að skella á þetta klisjunni um „banality of evil“ en kannski þrífast illskan og hið banala einfaldlega hlið við hlið, hvort með sitt eðli. Myndinni lýkur á því að við fáum að fylgjast með ræstingakonum nútímans þrífa helfararsafnið í Auschwitz. Sannarlega óvæntur snúningur en vitaskuld þarf líka að þrífa söfn um helförina. Ég held að mömmu heitinni hefði líkað þessi endir.

Það eru býsna margar almennar túlkunarleiðir að þessari mynd Jonathans Glazer um „hið góða líf“ í helförinni. Við lifum mörg góðu lífi núna, einkum við Vesturlandabúar, en útrýmingaratburður stendur yfir af okkar völdum og hefur staðið í mörghundruð ár án þess að vera okkur ofarlega í huga hversdagslega. Eins lifum við jafnhliða öðrum heimshlutum og fjölmennari sem aldrei eru í fréttum og flestum finnst sjálfsagt að lúti yfirráðum ríku þjóðanna. Frú Höss er þannig býsna nálæg hinum venjulega vestræna manni, líka í því að hún trúir beinlínis á verkefnið sem kvaddi hana til Auschwitz. Þess má geta að eiginmaðurinn varð síðar eitt besta vitnið í Nürnbergréttarhöldunum vegna fílaminnis á tölur og staðreyndir varðandi útrýminguna og þannig náði hann að hjálpa bandamönnum að hengja ýmsa helstu yfirmenn sína áður en röðin kom að honum sjálfum.

Previous
Previous

Flís, gleðikonur og Dóttir flotaforingjans

Next
Next

Ekki hræddir við úlfa