Flís, gleðikonur og Dóttir flotaforingjans

Manni getur ekki annað en þótt örlítið vænt um bókamarkað Félags íslenskra bókaútgefenda (áður bóksala) sem hefur verið haldinn síðan um 1960, alltaf með nokkurn veginn sama merki (bókakarlinn) og seinasta áratug á Laugardalsvellinum. Nú þykist ég nokkuð viss um að ég hafi ekki farið á alla seinustu 45 markaðina en á allmarga af þeim. Þar varð atvik tengt flís um árið 1980 sem leiddi til þess að við heimsóttum frænda minn sem bjó í Bjarmalandi sem andaðist skömmu síðar og sú flís færði manni góða minningu um hann. Ég á líka Íslenskar æviskrár í hillunni sem voru keyptar á þessum markaði upp úr 1980 og hafa veitt mér mikla ánægju gegnum tíðina. Við vorum sex manna fjölskylda í leiguíbúð sem hafði væntanlega ekki efni á glænýjum bókum þannig að markaðurinn var mikilvægur fyrir okkur og síðan hef ég sjálfur verið viðriðinn bókaútgáfu, bókagerð og bókaheiminn alla þessa öld og hef fræðilegan áhuga. Ævisaga afa míns var á markaðnum í mörg ár og hvert ár varð afi ódýrari en að lokum seldist hún upp og maður gleðst yfir því að svona margir hafi kynnst afa frekar en að upplaginu hafi bara verið hent. Núna fara mínar eigin bækur hríðlækkandi á sama markaði en ég er þó stoltur höfundur a.m.k. fimm bóka sem hafa hreinlega selst upp og fást ekki keyptar lengur nema notuð eintök.

Upp úr 1990 man ég eftir skemmtilegri bókamarkaðsferð með vini mínum sem hefur sérstakan áhuga á skrítnum bókum og minnir mig að hann hafi fjárfest í bók með fegrunarráðum Joan Bennett. Í þeirri ferð rakst ég á ævisögu annars frænda míns en í nafnaskránni mátti finna Doris og Gladys, vændiskonur í London. Að sjálfsögðu fletti ég upp á þeirri síðu og vorkenndi konu frænda míns nokkuð yfir því að honum fyndist brýn þörf að geta kynna sinna við Doris og Gladys í ævisögunni. Nokkrum áður var bókamarkaður í Menningarsjóðshúsinu og þar keypti ég doktorsritgerð Bjarna Guðnasonar á hundrað krónur sem ég held mikið upp á síðan. Mér þykir vænt um mínar bækur, ekki aðeins vegna innihaldsins heldur líka vegna þess að ég man stundum daginn sem ég eignaðist þær og í ýmsum tilvikum var það á bókamarkaði, sérstaklega þegar ég var yngri og fátækari. Þess vegna elska ég enn bókamarkaði vegna þess að ég veit að fólk sem elskar bækur hefur ekki allt mikið fé milli handanna.

Upp úr 2000 var markaðurinn alltaf í Perlunni og man ég eftir ýmsum ferðum þangað með erlendum vinum sem flesta dreymdi um að kaupa Íslenzk fornrit og einn keypti heilu tugina af þeirri ritröð í Perlunni eitt árið. Lengi svipaðist ég um eftir bókinni Dóttir flotaforingjans sem ég held að hafi náð að fara á markaðinn a.m.k. 30 ár í röð en hún er nú horfin. Seinni árin hef ég svipast um eftir Lækni í Arabalöndunum. Bodil Forsberg og Erling Poulsen voru lengi hlið við hlið í bílförmum, áður en maður vissi að Erling Poulsen (1919–1995) var líka Bodil Forsberg. Theresa Charles voru hjón sem hétu Irene og Charles Swatridge. Systir mín eignaðist margar Nancy-bækur á Bókamörkuðum, við hefðum ekki keypt þær fullu verði. Þær voru eftir Carolyn Keene sem voru hinir og þessir höfundar en Edward Stratemeyer (1862–1930) var upphaflegi höfundurinn.

Þessa dagana stendur enn einn bókamarkaður yfir í Laugardalshöll. Eins og venjulega er Hið íslenska bókmenntafélag þar áberandi með marga góða titla sem ég hvet alla til að næla sér í. Ástæðan fyrir að við viljum gjarnan vera á markaðnum er að við viljum heldur selja bækur og jafnvel gefa þær en að þær endi í Sorpu. Til þess eru bækur að vera lesnar og hafa áhrif á sína lesendur. Vonandi næla einhverjir sér í bækur á markaðnum 2024 sem verða þeim innblástur og sem einhverjar verða enn í skápum þeirra eftir 70 ár.

Previous
Previous

Gera eins og mamma þín segir þér, Timótej!

Next
Next

Gott að búa í Póllandi?