Gera eins og mamma þín segir þér, Timótej!
Dune seinni hluti reyndist jafnvel enn betri en Dune fyrri hluti og segja má að nú sé Frank Herbert búinn að ná sömu stöðu og keppinauturinn Tolkien þegar kemur að hvalkynjuðum kvikmyndum. Þeim féll ekki við bækur hins enda eru endalokin á Dune svolítið eins og Sauron hefði unnið í Miðgarði. Pabbi heitinn hélt upp á báða og ég líka. Tolkien var notalegur gamall miðsækinn gúbbi en Frank Herbert dulspekisinnaður og gældi við fasisma. Margir vilja ímynda sér að Fróði sé eins konar Kristsgervingur en það er söguhetja Dune sannarlega og þarf að ganga grýtta braut pyntinga, lífshættu, blávatnsdrykkju og dauða til að verða kwisatz haderach eða lisan al-galb eða allt hitt sem hann er kallaður. Í myndinni er hann afar tregur til á meðan mamma hans veit hvað þarf að gerast og snýst drjúgur hluti seinni myndarinnar um þetta unglingavandamál Messíasar litla uns hann ákveður að vera sigurvegari með því að feta í fótspor Stalíns heitins við mikinn fögnuðar mömmunnar, herforingjans Gurney Hallecks sem birtist óvænt á lífi í miðri mynd, heittrúaðra bláeygðra fremena og mín. Sem kunnugt er þessi karlkyns norn leikin af Timothée Chalamet, Gretu Garbo nútímans. Hann er svo lánsamur að líkjast einum fallegasta vini mínum, er s.s. með andlit fyrir stóra tjaldið og drjúgur hluti myndarinnar er hann að stara misbláeygur í eyðimörkinni. Eins gott að hann er ekki haldinn óbeit Anakins Skywalker á sandi, hugsaði ég.
Óvættir myndarinnar eru hinir feitu og sköllóttu Harkonnen-frændur og er mikið „bodyshaming“ gegn holdugum og sköllóttum Finnum í gangi í þessari mynd. Stellan Skarsgård leikur ættföðurinn sem er svo feitur að hann svífur um allt eins og loftbelgur, Dave Bautista leikur flónið Rabban og Austin Butler (Elvis) leikur unga frændann af talsverðri áfergju og er býsna góður í hlutverkinu (talsvert betri en Sting forðum), hiklaust jafningi Chalamets þegar þeir eru báðir á sviðinu smástund. Annars er aðalstjarnan ásamt Tímóteusi mamman göldrótta sem hin sænska Rebecca Ferguson leikur. Þau mæðginin eru bæði nornir og hafa náð tökum á „röddinni“, helsta vopni nornarinnar (sem ég hef raunar sjálfur notað með góðum árangri). Glæsikvendið Zendaya er í hlutverki bardagakonunnar sem við sem höfum lesið bókina vitum að hann mun aldrei giftast en Florence Pugh leikur prinsessuna sem Chalamet giftist (í annað sinn, hann giftist henni líka í Little Women eftir að hafa daðrað við systur hennar alla myndina). Þá birtist Christopher Walken í hlutverki keisarans og er viðeigandi í ljósi þess að allar væntanlegu myndirnar í Egilshöll eru endurgerð einhvers frá 1980 (hætti mannkynið að fá hugmyndir þá?) en þá var göngumaðurinn einmitt mjög vinsæll. Javier Bardem er líka stórgóður í hlutverki heittrúaðs fremena og engu líkara en hann hafi alist upp á Dune.
Öfugt við hinn kaþólska Tolkien hafði Herbert beinlínis áhuga á trúarbrögðum og dulspeki. Aðalpersónan í fyrstu skáldsögunni í Dune-flokknum er ekki aðeins galdramaður heldur verður hann að lokum guð og að sjálfsögðu hefur hann sigur og þeir sem trúa á hann efast auðvitað ekki um það. Þetta er ekki beinlínis boðskapur sem fellur í kramið á Íslandi nútímans þar sem allir eru eigin pervisalegu guðir á samfélagsmiðlum, ekki síst þeir fjölmörgu sem eiga 5000 „vini“, en sem áhugamaður um miðaldir (já, og atvinnumaður) finnst mér þetta mjög áhugavert og myndin er auðvitað stórkostleg á allan hátt, myndatakan og hin risavaxna leikmynd og tónlist Hans Zimmer ekki síst en líka hinn hárprúði Chalamet í eyðimörkinni og þessi nýja hápólitíska frelsunargoðsaga þar sem kryddið er helsta vopnið auk þess sem Chalamet reynist eiga góðan forða af atómbombum þegar þörfin er mest. Debbie Harry hefði glaðst.
Myndin er sem sagt hápólitísk og endar ekki vel sem fellur kannski að stemminguna í nútímanum, a.m.k. hjá öllu þunglynda fólkinu sem telur sig skilja nútímann með því að fylgjast með fréttum. Chalamet reynist vera prýðilegur messías þegar hann notar röddina og vinnur að lokum bardaga við fimasta sköllótta manninn – ég er ekki að spilla sögunni fyrir neinum því að fólk sem hefur ekki lesið bókina, séð myndina frá 1984 eða sjónvarpsþáttinn frá 2000 á ekkert gott skilið. Hann dömpar snarlega bláeygu stúlkunni og giftist prinsessunni og síðan stefnir í stríð við hvítliða í lokin sem maður efast ekki lengur að hann hefur nauðsynlega hörku til að vinna. Ekki veit ég hvort fleiri myndir verða gerðar, Chalamet er kannski aðeins of góður leikari til að festast í þessu hlutverki, eða hvað gerist í þeim því að þrátt fyrir botnlausa ást mín á pabba hefur mér aðeins tekist að lesa þessa einu fyrstu bók en sem eina myndin sem ég sé í bíó þetta ár stóð Dune 2 fullkomlega undir væntingum.