Konan og plágan

Eftir andlát Auðar Haralds í janúar hef ég tekið upp einar fjórar bækur hennar og lesið eina í fyrsta sinn, Hvað er drottinn að drolla? sem kom út árið 2022 en mun hafa verið skrifuð fyrir aldamót. Bækur Auðar eru hver annarri ólíkar fyrir utan hinn fyndna sögumann sem jafnan er í aðalhlutverki. Seinasta skáldsaga hennar einnar, Ung, há, feig og ljóshærð, kom út árið 1987 og hana las ég líka nýlega. Hún er fyndin líkt og hinar en ég hef aldrei náð sambandi við hana, er líklega ekki nógu vanur bókmenntagreininni sem unnið er með. Mér líkaði aftur á móti feykivel við Hvað er drottinn að drolla? sem gerist að mestu á Englandi á plágutímum árið 1348 en þar rankar íslenskur sögumaður við sér í líki ungrar enskrar konu sem til stendur að gifta. Á þessu tímaflakki lærir hún meðal annars að kannski er nútíminn ekki sem verstur og heilbrigðiskerfið kannski ekki jafn hræðilegt og stundum er sagt. Um leið verður það henni til ama að hvorki kaffi né tóbak voru komin til Evrópu á þessum tíma og því áberandi lífsgæðamunur milli þeirra og okkar.

Mér finnst furðu lítið hafa verið rætt um þessa ágætu plágusögu sem er bæði frumleg og greindarleg eins og allar bækur Auðar en það er kannski ekki óvænt þar sem það er furðu lítið rætt um allar bækur og Auður varð aldrei að þeim höfundi sem mest var snobbað fyrir. Bókin er býsna haganlega samin, sögur Auðar voru flestar óvenjulega byggðar og enduðu gjarnan snögglega þegar hentaði. Hin íróníska fjarlægð kemur stundum í veg fyrir innlifun en ekki þó í þessari sögu. Ensku kaflarnir skiptast í tvennt: lífi á ríkmannlegum sveitabæ sem nútímakonunni finnst samt býsna fátæklegur og síðan flótta ungu konunnar í fylgd bjarnar. Bakgrunnur plágunnar er skelfilegur en nútímakonan nýtur lesturs á fræðiritum um pláguna og þekkingar á sóttvörnum. Það er áhugavert að lesa ritið í kjölfar covid og kannski engin tilviljun að þá var hún loksins gefin út.

Í pestinni hafði ég lesið ég aðra plágubók eftir annan eftirlætishöfund, Minette Walters (f. 1949) sem líkt og Auður hafði áður sérhæft sig í annars konar bókmenntum. Minette er ekki húmoristi líkt og Auður en persónur hennar eru áhugavert fólk sem hún hefur ríka samúð með. Íróníuna skortir en innlifunin þeim mun meiri. Aðalpersónan er ekki tímaflakkari en skilur samt pestir betur en aðrir og einangrar sig og allt samfélag sitt í kastala á meðan plágan gengur yfir. Afleiðingar hennar eru vitaskuld skelfilegar og aðrar en það sem við kynntumst í velferðarkerfi nútímans þar sem auðvelt er að koma eftir á og segja að covid hafi ekki verið neitt sérstakt. Kannski þyrftu fleiri að lesa þessar sögur báðar til að halda stóískri ró þegar áföll nútímans ganga yfir — raunar held ég að hún sé býsna algeng í nútímanum þó að aðeins heyrist í þeim sem ekki njóta hennar í samfélagsmiðlaheiminum.

Fyrir utan að vera góðir sögumenn og áhugasamar um plágur eiga Minette og Auður ekki ýkja margt sameiginlegt en þrátt fyrir talsverða pestarþreytu naut ég beggja sagnanna umfram margt annað sem ég hef lesið seinustu ár. Það væri óskandi að fleiri íslenskir höfundar byggju yfir annarri eins frásagnargáfu og Auður heitin þegar hún var upp á sitt besta.

Previous
Previous

Það sem aldrei varð

Next
Next

Gera eins og mamma þín segir þér, Timótej!