Það sem aldrei varð

Ég verð að játa að ég hef aldrei beinlínis lesið bók eftir David Nicholls (f. 1966) og man ekki eftir að neinn hafi mælt með honum við mig þó að bækur hans séu metsölu- og verðlaunabækur. Kannski vegna þess að það er búið að gera aðlaganir af þeim öllum. Us með Tom Hollander og fleirum var stórgóð og ekki aðeins vegna góðra leikara og myndatöku heldur var greinilega hljómbotn í handritinu og Nicholls mun hafa samið það sjálfur. Eftir að mælt hafði verið með One Day á Netflix við mig þá ákvað ég að horfa líka á það, 14 þættir sem flestir eru hálftími eru sjö tímar og það eru tveir dagar fyrir fólk sem ekki á börn undir 10 ára þannig að ég sló til og nú hef ég horft á hana. Mun ég lesa bókina? Ég stefni ekki að því. Mér finnst fléttan ekkert sérstaklega áhugaverð og óviss um að ég hefði nennt að horfa ef leikararnir hefðu verið verri.

Það á sérstaklega við aðra aðalpersónuna Dex sem er einn af þessum náungum sem er erfitt að skilja hrifningu annarra á (sumir eiga í svipuðu sambandi við Kjartan Ólafsson í Laxdælu) en leikarinn Leo Woodall („frændinn“ úr Hvíta lótusblóminu) gerir það ívið trúverðugra. Öðru máli gegnir um Emmu sem Ambika Mod (úr læknaþættinum átakanlega með Ben Whishaw) leikur og er hnyttin og sérvitur. Þau hittast í upphafi og ætla að eyða nótt saman, þetta einnanæturgaman nær aldrei á endastöð en hins vegar sitja þau uppi með hvort annað alla ævi og hittast iðulega 15. júlí sem er dagurinn eini í titlinum — með þeim afleiðingum að minnsta kosti að veturinn og færð á heiðarvegum spillir ekki athafnagleði neins. Þó hittast þau ekki alltaf þennan dag enda væri það kannski einum of í ljósi þess að þau eru ekki par. Á milli hittast þau stundum takmarkað eða alls ekki, giftast öðrum og skilja og eiga hvort sína framabraut, eins og raunverulegar manneskjur. Ég er þó ekki alveg viss um hvort ég hef mjög mikinn áhuga á svona pörum sem aldrei geta væflast til að byrja saman en þetta er sannarlega vinsælt efni í miðaldabókmenntum líka. Raunar elskuðu miðaldahöfundar fátt meira en pör sem geta ekki væflast til að byrja saman og annar helmingurinn iðulega gaur sem maður átti að fyrirgefa allt af því að hann gat ort „Brámáni skein brúna“ eða eitthvað álíka væmið.

Aðrar persónur í þættinum eru iðulega hnyttnar enda breskar og Bretar eru sem alkunna er hnyttnasta þjóðin en skipta samt litlu sem engu máli fyrir söguna sem snýst eingöngu um þau Emmu og Dex og eiginlega er þátturinn áhrifamestur þegar þau eru ein á skjánum. Hann er líka áhugaverður fyrir mig vegna þess að sagan gerist frá 1988 til 2007 en á þeim árum fór ég til Bretlands í fyrsta sinn, annað sinn, þriðja sinn og svo framvegis, iðulega ekki fjarri 15. júlí. Mig minnir raunar að þann dag hafi ég misst af flugvél í fyrsta og eina sinn á ævinni vegna þess að ég var svo vitlaus eða óstressaður að fara til Lundúna eftir sprengjuárásina árið 2005 — en þeim tiltekna 15. júlí er raunar sleppt í þáttunum (ætti að vera í þætti 14), ég veit ekki um bókina sem ég hef ekki lesið og mun varla lesa úr þessu. En leikmyndin er trúverðug og almennt heldur vandaðri en gengur og gerist í íslenskum þáttum þar sem alltaf eru a.m.k. tíu villur til að halda áhorfendum við efnið og til að sanna að íslenskir listamenn séu allt of svalir til að temja sér vandvirkni en ég sá ekki neinar tímaskekkjur í þessum þáttum sem drógu athyglina frá því sem átti að vera aðalatriðið.

Þrátt fyrir alla hnyttni er þátturinn hreint ekki upplífgandi. Hvorugt þeirra virðist mjög hamingjusamt eða gera aðra glaða í kringum sig og sérstaklega Dex er náungi sem flestir gætu þakkað fyrir að hafa aldrei orðið ástfangnir af (fellur hugsanlega undir skilgreininguna á „fuckboi“ sem ég er þó ekki 100% heima í) þó að það sé samt fyrst og fremst hann sem lýsir upp skjáinn þegar hann er með. Skilaboðin eru kannski þau að heillandi karlar séu flestir ónytjungar (og að það beri að kenna komandi kynslóðum það ágæta orð) og best að forðast þá og kannski er það einmitt dagsatt.

Previous
Previous

Norrænar bókmenntir í Cambridge

Next
Next

Konan og plágan