Um mannskepnuna

Vegna þess að ég ræddi aðeins um hina afkastamiklu Joyce Carol Oates um daginn er rétt að geta þess að a.m.k. ein skáldsaga hennar hefur komið út á íslensku og það er Skepnur (2001). Þó að Joyce setjist yfirleitt ekki niður fyrir minna en 800 bls. er þetta stutt saga og í fyrstu virðist hún fjalla um misnotkun karlkyns kennara á kvenkyns nemendum í litlum háskóla í Massachusetts en málið er kannski örlítið flóknara og heiti sögunnar skiptir kannski meginmáli í túlkun hennar. Mann grunar eftir einn lestur að raunsæisleg túlkun geri henni kannski engan greiða.

Stúlkurnar Í Catamount eru allar upprifnar af kennaranum Andre Harrow sem er líflegri en aðrir kennarar. Sögukonan Gillian er feimin og hlédræg og því ein af þeim seinustu að fara að eltast við kennarann og konu hans, listakonuna Dorcas. En um leið og þau vita af áhuga hennar taka þau hana upp á sína arma og innvígja hana í eigin dýrslegu fantasíur. Ljóst er að hlutverkið sem hún gegnir hefur farið illa með margar skólasystur hennar sem eru teknar að hverfa úr skólanum. Um leið gengur brennuvargur laus og hegðun hans gæti minnt á vítisloga.

Að ofan má sjá enska kápu sögunnar sem er heldur glæfralegri en sú íslenska enn ofar (sem ég get ekki ímyndað mér að hafi selt mörg eintök). Þar er túlkunin sú að í sögunni takist fríða og dýrið á en í texta Oates eru stúlkurnar sjálfar, langanir þeirra og ímyndar, ekki jafn skjannahvítar og myndin gefur kannski til kynna eða ef til vill er Oates að kanna hversu saklaust sakleysið sé í raun. Þó að sagan sé stutt er textinn hlaðinn af myndum og vísunum og ekki síður hugmyndum og þversögnum, vekur kannski fleiri spurningar en svör, jafnvel um það hvað háskólanám og bókmenntanám sé eiginlega.

Previous
Previous

Indlandsferð Forsters

Next
Next

Pastelævintýrið