Indlandsferð Forsters

Núna er skáldsagan Ferð til Indlands loksins komin út á íslensku í þýðingu Hjalta Þorleifssonar. Hún er sennilega ein af mikilvægustu bresku skáldsögum 20. aldar, sjötta og seinasta skáldsaga E.M. Forsters sem aðeins gaf út skáldsögur milli 1905 og 1924 þó að hann létist ekki fyrr en árið 1970, mánuði áður en ég fæddist. Fimm skáldsögur hans hafa verið kvikmyndaðar og fjórar af myndunum eru með betri bíómyndum aldarinnar sem leið. Ég hef séð allar bíómyndirnar og lesið allar sögurnar nema þá fyrstu sem flestum þykir minnst til koma. Best af þeim er Howard’s End en A Passage to India er raunar ekki mikið síðri.

Mér hefur oft fundist Forster vera hálfgerður Thomas Mann Englands, kannski aðeins smærri í sniðum. Hann hefur áberandi symbólskar hneigðir, skrifar talsvert um kynferði, langanir og þrár en líka stéttskiptingu og í Ferð til Indlands auðvitað um bresku nýlenduherranna og mikilvægustu nýlendu þeirra. Forster er frumlegur, nákvæmur og fyndinn höfundur sem gaman er að lesa. Tilviljunin leikur hlutverk í mörgum bóka hans og hann hefur talsverðan áhuga á hinu dularfulla og óskýranlega sem féll misvel í kramið á sínum tíma.

Forster tileinkaði Ferð til Indland vini sínum Syed Ross Masood sem hann kenndi í Oxford og varð ástfanginn af. Masood var þá 17 ára og var stöðugt að lýsa ást sinni á Forster sem misskildi hann líklega eitthvað en hélt síðan áfram að unna honum alla ævi. Að margra mati er Dr Aziz í skáldsögunni innblásinn af Masood og það kann vel að vera en er varla það áhugaverðasta við söguna sem snýst um stærri hluti en einkalíf eins manns. Þó að ég sé sjálfur búinn að lesa allar bækurnar á frummálinu vona ég að þessi þýðing verði til að Forster eignist fleiri aðdáendur á Íslandi og að frekari þýðingarstarf verði í kjölfarið.

Previous
Previous

Den djævelske slange

Next
Next

Um mannskepnuna