Den djævelske slange
Ég er auðvitað búinn að lesa nokkrar jólabækur en skrifa ekkert um þær nema ég hafi eitthvað merkilegt að segja. Þessar vikurnar er ég líka að horfa á Morse á DR 1 (sbr. titilinn að ofan). Ég held að það séu ekki nema 2-3 ár síðan Morse var seinast á DR 1 og þá horfði ég líka. Líklega ímynda ég mér að ég sé að æfa mig samtímis í dönsku og ensku því að danskur texti fylgir Morse í DR 1. Kannski er það ekki almenn skoðun að sjónvarpsefni hafði náð hátindi sínum 1985-1995 en sannarlega er það mín skoðun, að minnsta kosti sjónvarp við hæfi andlega miðaldra eins og Morse. Kannski sakna ég tímans þegar við fjölskyldan horfðum öll saman á Morse í stofunni í Álfheimum, fyrir daga snjallsíma og tölva. Mér finnst þættirnir raunar talsvert betri í annað sinn. Ekki vegna þess að glæpirnir séu forvitnilegir heldur mun fremur einvígi Morse og Lewis um verkferla eða samræðurnar um eðli lögreglustarfsins. Eiginlega finnst mér best atriðin þar sem Morse situr einn heima með viskíglas í hönd, fagra tónlist á fóninum og starir í tómið líkt og höfundar hafi lesið yfir sig af Nietzsche.
Morse og Lewis eru skemmtilega almennar persónur, annar fulltrúi skáldlegs innsæis og skapandi gáturáðningar en hinn les gögnin og fer gjarnan hina beinu leið sem oft reynist skynsamlegast. Þeir hafa rétt fyrir sér til skiptis. Í einum þættinum er Morse svo sannfærður um að frekar slepjulegur bílasali sé hinn seki að hann hunsar allan skort á sönnunargögnum og þá þarf Lewis að tala máli skynseminnar. Í öðrum reynist Morse hafa haft rétt fyrir sér um að kollegi þeirra hafi eitthvað að fela þegar Lewis heldur að öfund ráði gjörðum hans. Stéttaskipting og tónlistarsmekkur leika líka mikið hlutverk og aðdáendur Pierre Bourdieu komast í feitt. Eitt skemmtilegasta augnablikið er þegar Lewis segir konsertpíanista að hann hafi keypt rafmagnshljómborð handa syni sínum og hún kemur ekki upp orði af hneykslun.
En þó að Morse sé mun framari í að glíma við menningarlega dulmálslykla yfirstéttarinnar – og eins þykjast háskólaborgarar Oxford gjarnan skilja sálfræði þess brotthorfna – er Lewis á hinn bóginn nokkurn veginn ótruflaður af fólkinu sem tengist glæpunum á meðan Morse er oftar en ekki ástfanginn af glæsilegu miðaldra konunni sem reynist vera miðdepill glæpsins. Mér leiddust þessi misheppnuðu ástamál hans þegar ég var unglingur en núna finnst mér þau hátindur þáttanna og Morse vera rómantískur 19. aldar maður (enda hélt frændi minn barnungur um tíma að þættirnir væru þýskir). Maður fær sennilega nokkra útrás að sjá mann sem er svona snjall á einu sviði vera algerlega misheppnaðan á öðru. Líklega þekkjum við mörg þá tilfinningu.
Fólkið að ofan er statt á The Randolph Hotel þar sem ég hef gist og drukkið koníak á bar sem nú er kenndur við Morse. Sem kunnugt er gat meistarinn ekki hugsað nema hann svalaði þorstanum fyrst.