Kakan og hurðahúnninn

Þar sem ég er aðeins með bloggsíðu er væntanlega ekkert athugavert að ég minnist á bókina Reykjavík eftir systur mína og Ragnar Jónasson (sem tengist mér raunar líka á margvíslegan hátt) en hún er önnur spennusagan sem ég les í vetur, sú fyrri var Eitt satt orð eftir Snæbjörn Arngrímsson. Báðar bækurnar las ég hratt sem verður að teljast meðmæli. Bækurnar eru fjarska ólíkar þó að báðar megi kalla spennusögur sem skýrir kannski hversu létt mér veittist að lesa þær. Og því fylgir um leið lesgleðin yfir að hafa ekki misst alveg hæfileikann til hámlesturs.

Bókum með óvænt endalok er enginn greiði gerður með því að segja of mikið um fléttuna þegar þær eru nýútkomnar en óneitanlega er áhugavert að velta kápunum fyrir sér. Önnur er ansi svört og gefur kannski til kynna myrkur í sálarlífinu og þema bókarinnar er mannssálin og furður hennar en einnig er þar áhugavert hliðarþema um smáatvik sem geta fengið mikilvægi í tilteknu samhengi. Hin kápan er í stíl sem minnir á árið 1986 þegar sagan á að gerast – árið sem margir misstu af kökunni og enn fleiri horfðu lengi á hurðarhún sem aldrei snerist. Hvorttveggja er nefnt í Reykjavík en kannski er besta tilvísunin í þessa ekkiviðburði að persónur sögunnar eru stöðugt á leið á góðu kvikmyndina Purpuralitinn en í staðinn sjá þær Top Gun tvisvar. Mér líður stundum eins.

Previous
Previous

Andi og efni

Next
Next

Den djævelske slange