Pastelævintýrið

Í ár urðu þau tíðindi í lífi mínu að fyrsta þýðingin á bók eftir mig kom út hjá Pastel en það er örsagnasafnið Legends í þýðingu Kelsey Hopkins. Mér hlotnaðist sá heiður að vera með í Pastelritröðinni árið 2020 og kynntist síðan þessum fyrirtaks þýðanda. Ævintýragirni Pastelfólks var slík að þau voru tilbúin að gefa þýðinguna út líka og hún er s.s. til. Ég held að það séu líka til nokkur eintak af íslensku bókinni sem nefnist Goðsögur.

Hugmyndin að bókinni er einföld. Þar eru sviðsettar fimm sögur beint úr Snorra-Eddu en eins og þær gerðust í nútímanum og tækjust á við nútímavandamál. Þannig fannst mér upplagt að sviðsetja för Þórs til Útgarða-Loka sem eitt af þessum kvöldverðarboðum þar sem nýju fólki líður eins og það sé endalaust að leysa prófraunir. Sagan um Svaðilfara nýtti sér kynóragoðsagnir um kynþokkafulla iðnaðarmenn. Frásögn Snorra-Eddu um vandræðabörn Loka tengdi ég við þá þrekraun miðaldra fólks að komast í kynni við stjúpbörn sem erfitt er að elska. Sagan um Baldur og Höður varð að fóðri í úttekt á helstu goðsagnaverum nútímans, poppstjörnunum. Fyrsta sagan snýst svo um tilraunir Ásanna til að skapa mannfólk úr trjádrumbum en mörgum kennara hefur stundum liðið eins – eða kannski um vanþakklátt hlutverk kennarans yfirleitt.

Þetta er auðvitað ein af mörgum nútímaendursögnum á sögum Snorra-Edda en kannski sú eina sem virkilega flytur þær til 21. aldar. Auk heldur langaði mig til að ræða goðsögur yfirleitt og kannski færa nútímafólk (þar á meðal sjálfan mig) nær því mikla verkefni Snorra að endursegja grundvallarandstæður trúarbragða í stuttri skemmtisögu en í mínu tilviki þá samfélagslega siði og hugmyndir. Vonandi er þetta ekki aðeins einfalt grín hjá mér því að ég stefndi hærra.

Previous
Previous

Um mannskepnuna

Next
Next

Hetjurnar sjö og „aðferðin“