Hetjurnar sjö og „aðferðin“
Bandaríska kvikmyndið Hetjurnar sjö (1960) er ein frægasta kúrekamynd allra tíma og þar sem ég var alinn upp í mikilli aðdáun á kúrekamyndum vissi ég allt um þessa mynd og hafði auðvitað heyrt lag Elmers Bernstein löngu áður en ég beinlínis sá myndina í sjónvarpinu 13 ára. Sennilega sagði pabbi okkur krökkunum undan og ofan af myndinni en hann var mikill aðdáandi Hollywood-töffara (Humphrey Bogart var númer eitt) og hefur það erfst til mín sem sameina það að vera óvenju mikill pabbastrákur og óvenju mikill mömmustrákur, út yfir gröf og dauða.
Í hetjunum sjö eru margir töffarar en senunni stelur illmennið Calvera. Hann er leikinn af Eli Wallach, frægum sviðsleikara frá New York sem var einn helsti fylgismaður Lee Strasberg sem gerði hina svokölluðu „aðferð“ (method) fræga á 6. áratugnum ásamt Brando og fleirum. Í myndinni notar Wallach einmitt aðferðina og leikur algerlega þvert á hefðir um kúrekamyndaleik. Stundum er eins og hann sé að leika í allt annarri mynd en hinir leikararnir og það er einkum þess vegna sem myndin er sérstæð og eftirminnileg, jafnvel fremur en sú staðreynd að hún er endurgerð á samúrajamynd Kurosawa sem hún líkist í raun ekki mjög mikið og sækir fyrst og fremst til hugmyndina um vígamenn sem taka að sér það vanþakkláta hlutverk að verja bændur með allt aðra lífsspeki.
Hér að ofan má sjá hetjurnar sjö – sex frábæra leikara og Brad Dexter sem var sýnu óeftirminnilegastur þeirra. Hinir allir slógu í gegn í myndinni og sumir áttu sinn allra besta leik þar, t.d. Robert Vaughn heitinn. Steve McQueen var auðvitað svalasti leikari 7. áratugarins en er í þessari mynd yfirskyggður af Yul Brunner – og Charles Bronson og James Coburn sem síðar urðu frægir gerðu heiðarlega atrennu að því að yfirskyggja þá báða. Ungstjarnan Horst Buchholz fer svo með hlutverk vígamannsins sem er í raun bóndi, aðalhlutverkið í japönsku myndinni. Buchholz var kannski merkilegri maður en leikari en stóð sína plikt þó að hann jafnist ekki á við Wallach eða Brynner.