Tvöþúsundbókamaður

Í dag er (líklegur) afmælisdagur François-Marie Arouet sem var þekktur undir nafninu Voltaire – eins og ég orðaði þetta vorið 1988 í sjónvarpinu í miðri spurningakeppni framhaldsskólanna á tilgerðarlegasta augnabliki ævi minnar. Eins og fram kemur í fyrirsögninni var hann einn af þessum duglegu skríbentum en það var þó aldrei notað gegn honum. Manni verður oft hugsað til Voltaire (höfundarnafn hans mun vera anagram) þessa dagana því að arfleifð upplýsingarinnar er enn mikilvæg og til hennar vísað í deilum um ýmis grundvallarmál.

Voltaire er oft tengdur við Rousseau og þegar ég heyrði fyrst um hann voru þeir á sömu síðu í mannkynssögu Jóns R. Hjálmarssonar sem var ekki kennd í mínum skóla en þá var ég orðinn svo áhugasamur um sögu að ég las líka svoleiðis bækur. Mig minnir að í þessari bók hafi líka komið fram hver framburðurinn væri þannig að ég man varla eftir mér ekki þekkjandi smettið á Voltaire, ártöl hans, framburð nafnsins og hið rétta nafn. Á hinn bóginn las ég ekkert eftir Voltaire fyrr en löngu síðar og man best eftir þeim tveimur bókum sem Hið íslenska bókmenntafélag hefur gefið út í lærdómsritaritröðinni, Zadiq og Birtingi (Candide).

Eins og frægt er var Voltaire í miklu uppáhaldi hjá hinum menntaðasta allra menntaðra einvalda sem var Friðrik mikli Prússakonungur og um hríð voru þeir sambýlismenn en síðan slitnaði úr þessu sambandi þó að þeir sættust að lokum á að halda fjarlægð og láta bréfaskriftir nægja. Eins og allir vita var Friðrik „kvenhatari“ og Voltaire ætlaði að senda frá sér opinskáar endurminningar þar sem einkalífi konungs væri lýst en Friðrik tókst að stöðva útgáfuna hér og þar. Sumir telja að Voltaire hafi verið helsta ástin í lífi Friðriks eftir að faðir hins unga prins – sem ég hef lengi talið einhvern leiðinlegasta föður í heimi – lét taka vin hans (og sennilega ástmann) von Katte barón af lífi og neyddi son sinn 18 ára til að horfa á. Pabbanum til afsökunar var hann raunar sárþjáður af offitu, magamígreni og þvagsýrugigt.

Previous
Previous

Bókmenntavefurinn

Next
Next

Ýfast sollnu sárin