Ýfast sollnu sárin
Jafnvel daga þegar maður les ekkert nýtt er hægt að ræða um bókmenntir og listir. Í dag er 18. nóvember en það er dánardagur Matthíasar Jochumssonar. Árið sem hann andaðist hafði hann áður ort minningarljóð um ömmusystur mína Rögnu Tulinius sem andaðist af spænsku veikinni aðeins 23 ára. Það var í febrúar 1920 og séra Matthías átti þá níu mánuði ólifaða. Kvæðið fer hér á eftir:
Ertu dáin, unga silkilín?
Eru slokknuð fögru ljósin þín?
Ýfast sollnu sárin,
sorgar vakna tárin.
Kveð mér huggun, harpan gamla mín.
Horfin, farin, ung og ástúðleg?
Einnig gengin sama dimma veg.
Fórstu að finna mínar,
félagssystur þínar,
hjartarósir þær sem þrái ég?
Enga betri áttu vinu þær,
andans snilld þér fylgdi nær og fjær.
Ást og yndi bragna
öllum varstu, Ragna.
Ungra meyja unaðsperla skær.
Við, sem grátum okkar ungu blóm,
æðrumst ei við lífsins skapadóm.
Hvað er heimsins glaumur?
Hvað er lífs vors draumur?
Misskilningur mest og glys og gróm.
Er ei víst að, að líf og ljós er til,
líf og ljós sem ekki er töfraspil?
Upp til hæstu hæða
hér er sorg og mæða.
Þar er sífelld sól með elsku yl.
Líf er breyting, þróun öld og ár,
eilíft líf sem græðir mein og sár.
Vetur lífs vors líður,
ljúfa vorið bíður,
hverja lilju lífga nætur-tár.
Ragna, Ragna, ber þú heilsan heim,
hjartanlega kveðju öllum þeim
sem með ljúfu lyndi
líkn þú varst og yndi.
Svíf svo heil og sæl um Guðs þíns geim.