Metsölubækur ársins

Flestum höfundum þykir ánægjulegt að teljast metsöluhöfundar jafnvel þó að metsala einnar viku stafi kannski eingöngu af vel heppnuðu útgáfuboði eða þeirri venju að birta metsölulista bóka innan flokks þar sem salan er mest lítil eða vegna þess að bókin kom út í viku þar sem lítið var um bóksölu. Öðru máli gegnir auðvitað um jólagjafabókahasarinn sem virðist dafna sem aldrei fyrr. En er góð staða á metsölulistanum leið til varanlegrar frægðar?

Hér að ofan má sjá metsölulistann eftir jólin fyrir 40 árum. Þar trónuðu á tindinum Dauðafljótið eftir Alistair McLean og Æviminningar Kristjáns Sveinssonar. Bréfin hans Þórbergs slá við öllum samtímaskáldum en þar urðu efstir Pétur Gunnarsson og Björn Th. Björnsson. Í tíunda sæti er söluhæsta bókin sem ég man alls ekkert eftir sem nefnist Bermúdaþríhyrningurinn en hinar sé ég allar fyrir mér enda lentu þær á heimilum vina eða vandamanna eða voru auglýstar mikið en á þeim tíma horfði ég á allar auglýsingar.

Til samanburðar má taka árið 1981 en þessi sölulisti er frá DV. Ég man eftir öllum bókunum á þessum lista nema Háskaför á norðurslóðum en hef ekki lesið þær allar. Fimmtán gíra áfram orðtók ég löngu síðar á Orðabók Háskólans. Ég man einna best eftir viðtalsbókinni við Gunnar sem á þeim tíma var vinsælasti stjórnmálamaður Íslands, a.m.k. meðal almennings. Lífsjátningu Guðmundu Elíasdóttur las ég líka nokkrum sinnum og fannst hún mögnuð. Hún var tilnefnd til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs á sínum tíma en núna hefur hún legið ótekin á bókaborðinu í Árnagarði í nokkrar vikur.

Ég hef aldrei lesið söluhæstu bók ársins 1983, Skrifað í skýin II, en vona samt að hún hafi verið betri en Ókindin II sem er ein versta mynd sem ég hef séð. Skæruliðana las ég aldrei heldur en nafn höfundar hefur eflaust selt hana (hún kom út árið 1982 á frummálinu þannig að óvíst er hversu mikið McLean skrifaði af henni). Í fjórða sæti er frumsamin skáldsaga sem orðið hefur sígild, Sitji guðs englar eftir Guðrúnu Helgadóttur. Enn er unnið með bréf Þórbergs og alls eru ævisagnaleg rit eldri karlmanna fimm af tíu mest seldu bókunum. Áhrifamikil bók á listanum er í 9. sæti, Landið þitt Ísland sem systir mín sjö ára tók ástfóstri við og er enn að þjóna Íslandi.

Fyrir höfunda sem ekki ná metsölu er gott að hugsa til metsöluhöfundarins Winstons Churchill sem átti hverja metsölubókina á fætur öðrum frá 1899 til 1913 og ein náði tveggja milljóna eintaka sölu í Bandaríkjunum. Hann er nú flestum gleymdur og í skugga nafna síns sem einnig setti saman skáldsögu á þeim tíma sem hlaut mun dræmari undirtektir en sá varð síðar forsætisráðherra Bretlands.

Previous
Previous

Ýfast sollnu sárin

Next
Next

Saunglist og faðirvor