Saunglist og faðirvor
Ég er byrjaður að endurlesa Sölku Völku en fer hægt því að textinn er svo góður að ég staldra við setningu á hverri síðu og undrast hversu góð tök Halldór Laxness hefur á setningunum og hljóm þeirra, umfram flesta aðra íslenska höfunda. Finnst það smáa í sögunni almennt eldast betur en hið stóra, stíllinn bestur þegar sögumaðurinn er nálægur persónunum en ekki fljúgandi yfir þorpinu að draga almennar ályktanir. Eins eru sambönd aðalpersónanna fjögurra dásamlega flókin og margræð – mér finnst Halldór frekar vantúlkaður en hitt þrátt fyrir öll skrifin um verk hans. Þau eru meðal þess sem best gerist í heimsbókmenntunum og langt umfram samfélagsrýnina sem hefur ekki lengur sömu tilhöfðun, eins breytt og Ísland er orðið og fyrst og fremst vandræðalegt þegar vel alið millistéttarfólk nútímans í sérstakri náð hjá fjölmiðlum reynir að sviðsetja sig sem verkalýð.
Ef ég ætti eftir að skrifa meira um söguna væru það sennilega blendnar tilfinningar Sölku til Steinþórs og Arnalds en einnig til Sigurlínu sem farið er ansi illa með í sögunni, jafnvel grimmdarlega og ekki síst af hálfu sögumanns. Steinþór þótti mér viðbjóðslegur þegar ég las bókina fyrst 19 ára og skildi ekki hversu blendin Salka virtist gagnvart honum. Ég hef nálgast skilning aðeins í þessum endurlestri. Lýsingarnar á trúarbrögðunum í upphafi bókarinnar eru líka sláandi fyrir Íslendinga nútímans en líklega ekki fyrir erlent fólk; erlendri vinkonu minni fannst fullmikið um trúarbrögð þarna í upphafi sögunnar.
Halldór er auðvitað utan míns sérsvið en þó hef ég skrifað greinar um þrjár lykilpersónur hans, í Sjálfstæðu fólki, Íslandsklukkunni og Atómstöðinni, sem ég tel sjálfur að hafi elst vel og þessar persónur reyndust allar mun fjölbreyttari og áhugaverðari en fyrri gagnrýni hafði dregið fram og þó held ég að það sé aðeins lítill hluti af mun stærri heild. Ef ég hefði þrek til myndi ég sennilega bæta við einni grein til viðbótar með greiningu á aðalpersónum Sölku. Margar aukapersónurnar eru aftur á móti hálfgerðar fígúrur og fullmikil hæðni stundum í þeirra gerð. Þar undanskil ég Bogesen kaupmann sem full ástæða er til að velta betur fyrir sér.
Ég er rétt að byrja á þessum endurlestri. Kannski verður full ástæða til að skrifa meira síðar. Í augnablikinu hvet ég ykkur öll til að draga Halldór fram og lesa hægt!