Eyru gundarksins

Um daginn var ég að kenna kaflana á alþingi sem margir lesendur Njálu hlaupa yfir og þá barst talið að söguheiminum. Í Njálu eru langar og miklar ræður þar sem Mörður Valgarðsson notar orðin heilundar, holundar og mergundar tíu sinnum og margoft er minnst á að eitthvað hafi gerst „yfir höfði Jóni“ án þess að nokkurn tímann sé skýrt hver Jón eigi að vera (Einar Ólafur Sveinsson kallar hann „reifunarmann“ í nafnaskránni). Þetta er í þeim hluta sögunnar sem margir lesendur eru svo vitlausir að sleppa en eru greinilega aðalatriði í sögunni. Einhverjir gætu haldið að þetta skýringaleysi væri skalli en í raun þarf enginn lesandi eða áheyrandi að vita hver Jón er. Hann er nefndur vegna þess að í góðum söguheimi þarf að nefna hitt og þetta skýringarlaust. Ef til vill muna lesendur eftir því að í Bráðavaktinni forðum var stöðugt að gefa sjúklingunum atrópín. Nú veit ég ekkert um virkni atrópíns og er nokkuð viss um að hið sama hafi gilt um flesta áhorfendur. En okkur fannst samt eitthvað vanta ef heill þáttur leið án þess að atrópín væri gefið því að það heyrir til á spítala, alveg eins og málflutningur Marðar heyrir til í lagaflutningi á alþingi.

Það er ekki aðeins Njáluhöfundur sem skapar sinn söguheim á svona slægðarlegan hátt með tilvísunum til einhvers sem aldrei er lýst. Í bók minni Tolkien og Hringurinn (2003) — sem þið skuluð öll lesa og kaupa ef þið rekist á eintak en annars sést hún sjaldan — minnist ég á tilvísun til Fjanors í miðri Hringadróttinssögu. Fjanor er ekki kynntur og kemur aðeins fyrir á þessum eina stað en þetta er hluti af því sem gerir söguheim Tolkiens magnaðan og spennandi. Hluti af honum var síður kynntur betur í eftirmálunum og Silmerilnum en alls ekki allt. Sama á við í sjálfu Stjörnustríði þegar Han Solo (Hans Óli) segir að Fálkinn hans „made the Kessel Run in less than 12 parsecs“ og dettur ekki í huga að skýra hvaða keppni þetta sé eða hver Kessel hafi verið. Síðar var það raunar skýrt (að óþörfu) en tilgangurinn var reyndar alveg skýr og áhrifin gagnleg fyrir fyrstu myndina. Við erum stödd í heimi þar sem fleira er til en við sjáum og þar á meðal Kessel-hlaupið.

Þetta er ekki eina tilvikið af þessu tagi í Stjörnustríði því að strax í næstu mynd segir Han við Loga geimgengil að hann sé þrátt fyrir nýleg áföll svo sterklegur að hann gæti rifið eyrun af gundark. Hvaða gundark? gætuð þið spurt. Núna er hægt að finna alfræðigreinar á netinu um þá ímynduðu skepnu en árið 1982 þegar ég heyrði þetta fyrst vissi enginn neitt um hvað gundark er eða hvers vegna hann var nefndur hér – en við þurftum ekki á því að halda til að skilja myndina og vita að augljóslega er grundark hræðileg skepna. Í þeirri mynd kom líka fyrir móðgunin „scruffy-looking nerf herder“ án skýringa á því hvað nerf sé eða hvers vegna það sé móðgandi að líkja einhverjum við slíkar skepnur eða hirða þeirra (augljóslega voru nerfir ekki fé án hirðis). Eflaust hefur George Lucas skýrt þetta síðar eins og allt annað en hin bókmenntalega skýring er að í slíkum hlutum felst galdur söguheimssköpunar. Það er mikilvægt að nefna hluti sem ekki skipta máli. Þetta vissi Njáluhöfundur auðvitað líka enda sagnalistin ekki síðri á 13. öld en nú og þess vegna sagði hann okkur aldrei hver Jón er.

Previous
Previous

Saunglist og faðirvor

Next
Next

Arnarnefið og ólundin