Arnarnefið og ólundin

Ég ákvað að gefa sjálfum mér langþráða gjöf nýlega og fjárfesti í nýrri útgáfu af Dularfullubókunum eftir Enid Blyton á frummálinu, fimmtán í einum kassa. Eins og margir muna kannski fjalla bækurnar um fimm krakka og hund sem leysa (ekkert sérlega) flókin sakamál í harðri keppni við hinn lánlausa Gunnar lögregluþjón (Theophilus Goon á frummálinu). Fremstur í flokki er Finnur Trotteville sem er sælkeri mikill og matvandur mjög, upphaflega þybbinn en grennist síðan, gengur jafnan með mikið lausafé á sér, býr við linkulegt uppeldi, hefur mikið sjálfsálit og verður fljótlega meistari dulargervanna, með þeim afleiðingum að ýmsar bækurnar snúast mun frekar um dulargervi Finns en hin dularfullu mál. Hin börnin eru miklar aukapersónur nema helst Beta Hilton sem við endurlestur reynist vera aðeins meiri „Mary Sue“ en mig minnti. Það vekur líka eftirtekt að mæður krakkanna (einkum frú Hilton og frú Trotteville) eru mun meira áberandi en feðurnir, eins og Pétursskógur sé hálfgert mæðraveldi.

Enid Blyton hefur alltaf verið flókið að staðsetja menningarpólitískt. Bækur hennar hafa bæði verið skammaðar fyrir takmarkað uppeldisgildi og fyrir enska millistéttarfordóma. Þær snúast alltaf um börn sem búa við ófrelsi bernskunnar og þöggun en ná í krafti hugkvæmni að leika á fullorðna fólkið og skjóta ref fyrir rass. En þessi viðsnúningur er takmörkunum háður því að þetta eru hvít millistéttarbörn sem iðulega eiga háttsetta bandamenn í lögreglunni eða meðal efri stétta því að annars gæti þau ekki haft betur í þessari viðureign. Enn fremur er heilmikil uppreisn í bókum Enid Blyton: stúlka vill vera strákur, menntunarlaust fólk reynist oft fremra betri borgurum, feiti strákurinn reyndist vera langsnjallastur og þar fram eftir götunum. En á hinn bóginn eru bækurnar fullar af miskunnarlausri stríðni og einelti sem beinist bæði gegn meirimáttar og minnimáttar. Í Dularfullubókunum er mikið pönkast á frænda Gunnars lögregluþjónn sem Örn nefnist (Ern á frummálinu) þannig að lesanda þykir stundum nóg um.

Upphaf bókaflokksins er snjallt en að ýmsu leyti fyrirsegjanlegt líka. Í flestum fyrstu bókunum reynist hinn seki vera tiltölulega leiðinleg manneskja sem líkar ekki við börn og hunda. Þetta á til dæmis við um garðyrkjumanninn Tómas (Mr Tupping á frummálinu) sem er kynntur sem „sá með arnarnefið og ólundina“ (þessi frasi hefur lifað í minni mínu í ríflega 40 ár) og ætlar að skella skuldinni á góða garðyrkjudrenginn Lúkas (í íslensku þýðingunni blasir ekki við að hann sé af lægri stigum en það kemur allgreinilega fram í frumtextanum) sem börnin taka að sér að hjálpa á meðan Gunnar lögregluþjónn ofsækir hann. En þá kemur yfirstéttin til hjálpar, bæði Lady Candling í næsta húsi (frú Candling á íslensku) og lögregluforinginn Jenks sem jafnan styður Finn og félaga.

Dularfullu málin eru þannig sjaldan verulega dularfull nema fyrir sauðinn hann Gunnar lögregluþjón (sem heitir Goon á frummálinu, sem í einni þýðingunni leiddi til þess að burmíska blaðið Rangoon Times varð að Borgundarhólmstíðindum á íslensku) þó að hann taki sig raunar stundum á og sé kominn á sömu braut og krakkarnir en á móti kemur að heilu og hálfu bækurnar fara í að börnin borða ís og vona að bráðum skelli á með dularfullu máli auk þess sem hin fjölmörgu dulargervi Finns Trotteville setja svip sinn á bókaflokkinn (í fimmtu bók fer hann í mútur og fækkar þá dularfullum sendlum í þorpinu).

Líklega var ég nýbúinn að kynnast þeim Palla og Togga þegar ég las Dularfullubækurnar (fyrst Dularfullu sporin sem mér fannst raunar svo hræðileg að ég þorði lengi ekki að lesa fleiri) því að ég sá Gunnar lögregluþjón alltaf fyrir mér eins og lögguna sem þeir áttu í útistöðum við (sjá mynd að ofan) og skeytti engu um það að margoft í bókunum kom fram að Gunnar væri þybbinn, skegglaus og með froskaugu. Smám saman varð Enid Blyton svo illa við þetta sköpunarverk sitt að hún fór að hljóma eins og twitterfarísei og segir í einni af seinni bókunum að „heimskan og grimmdin“ séu helstu einkenni Gunnars. Í ensku bókunum kemur raunar fram að börnin kalla hann alltaf „Clear-Orf“ en ég man ekki lengur hvort hann átti sams konar frasa í íslensku bókunum. Að minnsta kosti hefur hann ekki reynst minnisstæður.

Previous
Previous

Eyru gundarksins

Next
Next

Bókmenntagreinar