Bókmenntagreinar
Núna í október andaðist Alastair Fowler bókmenntagagnrýnir (f. 1930) en eina bók hans hef ég lesið og skrifað ritgerð um og verið prófaður í og nefnist hún KInds of Literature. Stórmerkileg bók en gagnaðist ekki mjög fyrir miðaldafræðinga vegna þess að allar okkar „bókmenntagreinar“ (Íslendingasögur, Íslendingaþættir, fornaldarsögur, samtíðarsögur) eru búnar til út frá forsendum 17. og 18. aldar sagnfræði fremur en bókmenntalegra einkenna eins og ég raunar benti á strax árið 1998. Bókin var hins vegar stóráhugaverð og gagnlegt að kynnast henni.
Eitt sem er gagnlegt við Fowler er greinarmunurinn sem hann gerir á tegundum og hætti (genre, mode). Svo að tekið sé einfalt dæmi þá getur harmleikur innihaldið gamansama kafla en um það skrifaði ég einmitt í gær. Þetta minnir okkur á mikilvægi þess að hugsa um heild verkanna þegar litið er til bókmenntagreinaflokkunar en ekki láta duga að tína til stílleg dæmi héðan og þaðan. Fowler var líka harður á að skoða bókmenntir í sögulegu samhengi sínu og festa ekki á þau merkmiða úr allt öðru samhengi. Raunar gætir hann þess í bókinni að flokka bókmenntir ekki of ákaft. Hans eigin sérsvið voru enskar bókmenntir 16. og 17. aldar og þegar ég las bókina langaði mig til að kynnast þeim betur enda ræddi ég þær líka í pistli í vikunni. Sú staðreynd að ég reyndi að kynnast bókmenntagreinum almennt með því að lesa bók eftir sérfræðing í enskum bókmenntum segir auðvitað sína sögu líka, en slíkir sérfræðingar myndu aldrei fræðast um bókmenntategundir almennt með því að lesa bók eftir sérfræðing í íslensku. Við búum í enskmiðuðum heimi og það er hollt að gleyma aldrei hvar völdin liggja.