Smávegis Njáluhúmor

Ég hef verið að kenna Njáls sögu þetta misseri, sjálfum mér til mikillar ánægju og mínum fáu nemendum vonandi ekki til armæðu. Eitt af því sem ég reyni að vekja athygli á er hversu fyndinn textinn er en það tekur oft tíma að átta sig á því. Ekki hef ég þó viljað tengja húmorinn við karnival eða grótesku heldur er frekar um launfyndni að ræða og sagan er hvorki satíra né parodía heldur sorgleg og grafalvarleg saga sem er samt tempruð af húmor, ekki ósvipað bestu skáldverkum síðari alda.

Að ofan má sjá eitt dæmi um Njálufyndni en hér er sagt frá brúðkaupi Hallgerðar langbrókar og Glúms sem henni féll við. Á hinn bóginn átti hún afbrýðissaman fóstra sem þegar hafði vegið fyrri eiginmann hennar. Þjóstólfur gengur hér um með reidda öxi sem er afar óviðeigandi í brúðkaupi en það sem er fyndið er setningin „lét það engi sem vissi“ því að hún beinir sjónum okkar að venjulega fólkinu í brúðkaupinu sem er önnum kafið við að leiða hjá sér dólgslega hegðun Þjóstólfs – fólkinu sem er að gæta þess að horfa í hina áttina til að eyðileggja ekki brúðkaupið. Með því að beina sjónum að venjulega fólkinu höfðar höfundur til empatíu okkar og eiginlega hlæjum við að okkur sjálfum því að hversu oft höfum við ekki flest reynt að sjá ekki óþægilega hluti?

Previous
Previous

Bókmenntagreinar

Next
Next

Séra Septimus