Séra Septimus
Eitt af því sem ég dunda við þá sjaldan ég fæ lausa stund er að rifja upp gamlar bækur sem ég las í kringum árið 1980 og eins gamalt sjónvarp frá sama tíma. Einn af þeim sem hefur rifjast upp er Leyndardómurinn, sex sjónvarpsþættir sem sýndir voru í janúar og febrúar 1981, kl. hálfsjö á laugardögum. Ég tengi þættina við bókasafnsferð í Sólheimasafn í minninu en veit ekki af hverju, grunar að ég hafi farið þangað og svo heim að horfa á þáttinn sem snerist um prest sem leysti sakamál og eitt sinn fann ég fyrsta af þáttunum sex á youtube og horfði auðvitað – í fyrsta sinn í lit því að árið 1981 vorum við enn með svarthvítt sjónvarp og hæstánægð með það. Enn hef ég ekki náð að lesa bókina sem þátturinn var eftir.
Höfundurinn Stephen Chance hét í raun Philip Turner og skrifaði barnabækur undir eigin nafni sem komu út frá 1964 en að auki notaði hann dulnefnið og setti saman fjórar sakamálasögur um prestinn Septimus Treloar sem áður var lögreglumaður. Þessar bækur komu út á ensku 1971-1979 og sú fyrsta var gerð að sjónvarpsþætti árið 1979 og síðan sýnd í íslenska Ríkissjónvarpinu í ársbyrjun 1981. Fyrir utan fyrsta þáttinn man ég ekki lengur hvað gerðist nema að séra Septimus var með unga aðstoðarkonu og einn af skúrkunum var kallaður Armchair en það var þýtt sem Jaki á sínum tíma; hann var leikinn af John Rhys-Davies sem síðar lék Gimli í Lord of the Rings.