Þýskar neðanmálsgreinar
Eitt versta sumar ævi minnar var sumarið 1996 þegar faðir minn lá fyrir dauðanum. Ég gerði mitt besta til að lifa það af, meðal annars með því að sitja löngum stundum á Landsbókasafni við að skrifa MA-ritgerð mína sem ég skilaði í september. Skrifin tóku sex mánuði og hún var um 300 síður. Ég læt öðrum eftir að dæma hvort hún er góð en ég lærði a.m.k. ósköpin öll á því að lesa allt sem þá var til á Landsbókasafninu um konungsvald fyrri alda. Ein bókin sem ég las var Intitulatio eftir Herwig Wolfram sem enn lifir (88 ára) og þar má m.a. finna þessa neðanmálsgrein:
Kannski er það þýskan en setningar eins og „doch ist dieses Werk leider völlig wertlos“ (því miður er verkið algerlega gagnslaust), „Dem Autor fehlt jede quellenkritische Schulung“ (höfundurinn hefur enga kunnáttu á heimildarýni) og „er ist als Mediävist nicht ernst zu nehmen“ (ekki ber að taka hann alvarlega sem miðaldafræðing) hafa skotið rótum í minni mínu. Þessi ógurlega strangfræðilega harka er bæði hræðileg og kannski aðdáunarverð eins og töffaraskapur er iðulega og verst af öllu er að höfundargreyið sem hér er afgreiddur fær aðeins neðanmálsgrein en ekki textann. Síðan hefur mig auðvitað dreymt um að fara eins með andstæðinga mína en ég nenni því aldrei og kannski er vandamálið að ég skrifa ekki þýsku.