Leitin að Lúsífer

Nýlega rakst ég á þáttinn Fallið (The Fall) í norska sjónvarpinu en ég hafði ekki séð hann áður, missti af honum á sínum tíma þar sem ég hélt að þetta væri aðeins enn einn lögguþátturinn og hafði ekki áttað mig til fulls á hinni miklu endurkomu Gillian Anderson sem ég auðvitað mundi eftir sem Scully í The X-Files en seinasta áratug hefur hún blómstrað sem aldrei fyrr og margverðlaunuð frammistaða hennar í hlutverki Stellu Gibson lögregluforingja í Fallinu er sannarlega eitthvað sérstakt og eins Jamie Dornan sem leikur morðingjann Spector sem hún eltist við. Við vitum frá upphafi að hann er hinn seki þannig að spennan snýst um annað en það, flókinn eltingarleik þar sem þau Gillian skiptast jafnvel stundum á að eltast hvort við annað.

Í þættinum er engin fjöður dregin yfir illmennsku morðingjans en þegar honum er fylgt nákvæmlega myndast samt samstaða með honum, kannski ekki ósvipað og í Paradísarmissi Miltons sem er innblásturinn að þættinum og Paul Spector sem Dornan leikur er þá Lúsífer sem olli falli mannkyns. Hliðstæðurnar eru þó ekkert æpandi heldur er stöðugt verið að sýna okkur flóknar og iðulega myrkar manneskjur, bæði í lögregluliðinu og utan þess. Þannig vinnur Spector sem sorgarráðgjafi og er greinilega góður í sínu fagi í velferðarþjónustunni. Honum lendir meðal annars saman við ofbeldismann sem lemur konu sína og er æpandi írónía að maður sem eltist við, pyntar, bindur og myrðir konur reynist bjargvættur þeirrar konu.

Eltingarleikur lögregluforingjans við illvirkjann verður að lokum þráhyggjukenndur enda tekur leitin þrjár syrpur, alls sautján þætti. Ekki er þar að finna ýmsar af þeim hefðbundnu klisjum sem tröllríða lögregluþáttum (erfiður yfirmaður, asnalegar reglur, kerfi sem stendur með glæpamönnum), lögreglukonan Gibson hefur oftast fullan stuðning í leit sinni en samt er hún ekki auðveld þar sem sannanir vantar og Spector er slyngur andstæðingur.

Þessi nútímauppfærsla á Paradísarmissi hnitast að einhverju leyti um þá grundvallarkenningu morðingjans að heimurinn sé fullur af sársauka og eymd og hið eðlilega viðbragð sé að ráðast gegn honum eins og hann telur sig hafa gert með því að veita órum sínum útrás. Andspænis þessu er réttvísin óneitanlega litlausari en þó vel holdgerð í hinni fölu ljóshærðu lögreglukona sem ávallt er steinrunnin á svip: sterk, vitsmunaleg, tilfinningabæld og þó ófullkomin en samt sú eina sem skilur að skrímslið er samt aðeins maður. Þó sú eina réttlætisgyðja sem völ er á.

Previous
Previous

Þýskar neðanmálsgreinar

Next
Next

Illræmdur fyrir org og grenjan