Illræmdur fyrir org og grenjan
Undanfarið hef ég verið að lesa Brekkukotsannál mér til ánægju. Stafar sú ánægja ekki síst af því að njóta texta höfundar sem skarar fram úr öllum. Samt hef ég alltaf haft heldur minni dálæti á þessari skáldsögu en flestum hinum og reyndi því líka að átta mig á orsökunum. Kannski er það yfirþyrmandi sögumannsröddin og írónían sem gegnsýrir bókina eða skortur á marxískri samfélagsgreiningu sem gaf fyrri bókum hans kraft þó að stundum þætti manni nóg um. Það er varla hægt að tala um fléttu í bókinni og Álfgrímur er daufleg aðalsöguhetja miðað við Sölku og Bjart. Á hinn bóginn er bókin einhver besta lýsing á reykvísku samfélagi um aldamótin þarseinustu sem ég hef lesið.
Brekkukotsannáll er auðvitað sú bók Halldórs sem hefur verið talin undir mestum áhrifum frá taóisma, og löngun hans þar var að skrifa um það dularfulla alþýðufólk sem er laust við „sérframtrönulegheit“ og er kannski heldur áhugaverðara sem manneskjur en sögupersónur. Eins fjallar bókin um árekstur blekkingar og veruleika og leitina að hinum hreina tón sem aldrei fannst. Áberandi er hversu höfundur gætir þess að setja ekki fram sannleik eða lausnir og bókin er því full af dulúð til enda. Þannig reyndist hún áfangi á leið til vaxandi áherslu á minningarnar og minni trú á boðun eða endanlegan sannleik. Ef til vill er það þessi vissa sem maður saknar og kannski líka persóna sem eru aðeins minna eins og fígúrur.
Sagan er margræð. Nákvæmlega hvaða ályktun lesendur eiga að draga af örlögum Garðars Hólm er loðið. Eins og venjulega hefur tómstundagaman þjóðarinnar verið að velta fyrir sér hvaða íslensku söngvarar væru hugsanleg fyrirmynd misheppnaða stórsöngvarans. Sjálfum datt mér í hug við þennan nýja lestur að helsta heimildin fyrir því hversu misheppnaður söngvarinn hafi reynst er raunar hann sjálfur og þar sem ég þekki marga þunglynda listamenn veit ég að þeir eiga til að ýkja hversu misheppnaðir, ófrægir og lélegir þeir séu. Hafa túlkendur kannski gengið of langt í að trúa sjálfsafhjúpun Garðars Hólm?