Tröllskapur í Paradís

Ásdís Thoroddsen hefur kortlagt íslenska menningu í áhugaverðum heimildamyndum um jafn fjölbreytt efni og matargerð, skóga og íslenska þjóðbúninginn og þar sem ég hef séð þær allar mér til mikillar ánægju var ég spenntur þegar hún bað um (og fékk) að sitja námskeið mitt um tröllskap haustið 2020. Þá var covid í algleymingi en við hittumst samt nokkur í galtómum háskólanum að ræða tröll tvisvar í viku. Það er ákveðinn heiður að þetta námskeið hafi haft áhrif á þá stórmerkilegu kvikmynd sem nú er í sýningu í Bíó Paradís og nefnist Tímar tröllanna.

Þar sem ég er ein af „stjörnum“ þessarar myndar dæmi ég hana ekki að öðru leyti en því að ég hvet áhugamenn um tröll eindregið til að sjá og aðra til að gerast nú þegar áhugamenn um tröll! En margt af því sem ég hef rannsakað um tröll endurspeglast þar og kannski skiptir ekki minnstu máli fjölbreytni tröllahugtaksins. Tökurnar á mínum atriðum voru í apríl og þá var enn ískalt en alltaf gaman samt að fara um Snæfellsnesið og Dalina.

Í ferðinni kom ég líka í fyrsta sinn á bæ Þórólfs bægifótar sem ég samdi um skáldsögu sem út kom árið 2011 og var það vitaskuld sögulegur viðburður.

Previous
Previous

Illræmdur fyrir org og grenjan

Next
Next

Aðgát og örlyndi