Aðgát og örlyndi
Það kann að koma á óvart að Jane Austen var ekki verulega þekkt utan heimalandsins fyrstu áratugina eftir andlátið og það var ekki fyrr en á 9. áratug 19. aldar að vinsældir hennar tóku mjög að vaxa og ekki fyrr en fyrir 80 árum eða svo að Jane Austen tók að njóta æ meiri virðingar í háskólaheiminum og verða að lokum það stórveldi sem hún hefur síðan verið sem leiddi að lokum til þess að fyrir fimm árum var henni reist stytta í Basingstoke. Fyrsta íslenska þýðingin sem ég veit um birtist á íslensku árið 1956 en seinustu áratugi hefur Silja Aðalsteinsdóttir séð um að kynna Íslendingum verk hennar og það var einmitt þýðing hennar á Hroka og hleypidómum sem kynnti mig fyrir Jane Austen þegar ég var naumvitur menntaskóladrengur.
Ný þýðing Silju á Sense and Sensibility (Aðgát og örlyndi á íslensku) er því meðal jákvæðustu tíðinda þessa jólabókaflóðs en þetta er fyrsta skáldsaga Austen sem sló í gegn á sínum tíma þó að hún birti hana raunar ekki undir nafni árið 1811 heldur var höfundurinn sagður „A Lady“. Titillinn á báðum tungumálum vísar til systranna Marianne og Elinor og upphaflega var sagan kennd við þær en með því að gera titilinn aðeins almennari veitti Austen skáldsögunni heimspekilega vídd eins og Harold Bloom komst að orði á sínum tíma.
Það má segja að Austen hafi tekist hið ómögulega að njóta að lokum virðingar (löngu eftir andlátið) fyrir skáldsögur sem fjölluðu um stöðu kvenna og hjúskaparmál. Enn vill bera á því að sögur með kvenkyns aðalpersónur séu frekar flokkaðar sem afþreying en alvara þó að auðvitað hafi mikið breyst og ekki hjálpar til ef þær eru fyndnar líka. Það eru sögur hennar oftast, engin kannski til jafns við Hroka og hleypidóma en Aðgát og örlyndi er líka skemmtileg bók og nýtur sín vel í þýðingu Silju.