(Tiltölulega) óþekktur kvikmyndasnillingur

Ég fór í sjálfsnám í kvikmyndum fyrir 8-9 árum vegna einhverjar miðaldursóeirðar og nældi mér þá í alls konar forn snilldarverk sem ég hafði sum séð ungur og vitlaus í sjónvarpinu en önnur alls ekki. Einnig hjálpuðu norrænu sjónvarpsstöðvarnar til en þar eru yfirleitt sýndar mun betri kvikmyndir en hér heima, raunar iðulega undir norrænu heiti þannig að stundum þurfti að hafa sig allan við til að átta sig á að það væri verið að sýna bíómynd, hvað þá hver hún væri. En það var á því sumri sem ég áttaði mig á snillingnum Norman Jewison sem enn lifir (96 ára), þegar ég hafði óvart séð fjögur snilldarverk hans án þess að hafa áður munað að þau voru öll í leikstjórn sama manns.

Ein var Jesus Christ Superstar sem ég sá að sjálfsögðu á norrænni sjónvarpstöð á páskunum í enn eitt skiptið en smám saman var ég farin að uppgötva hversu vel gert verk þetta er, ekki aðeins sjálfur söngleikurinn heldur ekki síður kvikmyndin sem er afar póstmódernísk, leikararnir mæta til leiks í rútu og klæða sig í búninga sem eru fjarri því að vera raunsæislegir og sérstaklega er áberandi hvernig rómversku fangaverðirnir sem síðar leiða Jesú út um allt eru augljóslega Bandaríkjamenn frá upphafi 8. áratugarins. En þó að öll áherslan sé á sönginn er myndin svo eftirminnileg útlits líka að allar aðrar gerðir sama verks (ég gef þeim oftast séns) vekja nú hjá mér löngun að sjá útfærslu Jewisons aftur þó að ég hafi áður séð myndina oft án þess að þekkja nafn leikstjórans – þess má geta að Jewison er kanadískur og ekki gyðingur.

Sú næsta sem ég sá var keypt á dvd-diski því að hún sést lítið í sjónvarpi eða á streymisveitum en það er kvikmyndin The Russians Are Coming frá 1966 sem foreldrar mínir friðarsinnarnir héldu á sínum tíma mjög upp á. Þessa mynd sá ég í sjónvarpinu árið 1984 og við fjölskyldan hlógum mikið og hún breytti reyndar viðhorfi mínu til kvikmynda, kannski fyrir tilviljun samt, því að þarna var ég byrjaður að taka eftir því hvað leikararnir hétu og lærði nöfn þeirra. Hún er satt að segja ekki jafn fyndin við áhorf númer tvö en ekki síður góð og snjöll. Þó að ég hafi vitað allt um leikarana í 30 ár áttaði ég mig ekki á því fyrr en í enduhorfinu að þetta var líka verk Jewison.

In the Heat of the Night var ein þeirra mynda sem heillaði mig ekki við fyrstu sýn og ég var líka einn þeirra fjölmörgu sem fannst hún ekki jafn góð og Bonnie og Clyde eða The Graduate sem kepptu við hana um óskarsverðlaun á sínum tíma. En þegar ég sá hana í annað sinn skildi ég hversu magnaður sagnameistari Jewison er því að myndin reyndist líka vera hans og þó að hinar myndirnar séu góðar er þessi líklega best sem handverk. Myndin var á sínum tekin mjög alvarlega sem ádeila á aðskilnaðarstefnuna í Bandaríkjunum, það var viðurkennt strax í upphafi að Rod Steiger vinnur leiksigur en samt er þetta morðgáta og fylgir öllum lögmálum slíkra verka, m.a. þeirri reglu sem stundum er hunsuð í íslenskum morðsögum að morðinginn eigi að vera áhugaverð persóna. Í þessu verki sést hann í fyrsta skoti og virðist fyrst vera kómísk aukapersóna en annað kemur á daginn.

Skömmu síðar rakst ég fyrir tilviljun á The Cincinatti Kid sem fjallar um pókerspilara og ég hafði alltaf haldið að væri afþreyingarmynd og ætlaði ekki að horfa en þegar ég sá að Norman Jewison væri leikstjórinn fylltist ég væntingum sem myndin stóð síðan undir. Þetta reyndist vera existentalísk saga frá kreppuárunum með fjölda sterkra aðal- og aukapersóna og sannfærði mig endanlega um að Norman Jewison væri óþekktur snillingur. Sem ég er nú búinn að deila með ykkur í von um að einhver geti nýtt sér þessa þekkingu og ef Jewison sjálfur er nógu netvæddur til að lesa þetta með aðstoð þýðingargúgls segi ég takk!

Previous
Previous

Aðgát og örlyndi

Next
Next

Bókmenntasaga fyrir okkar tíma