Bókmenntasaga fyrir okkar tíma

Þar sem í gær var minnst á útgáfustarf Hins íslenska bókmenntafélags er ekki úr vegi að nefna annað dæmi sem er bókmenntasöguritið Íslenskar bókmenntir I–II sem er tiltölulega komið út og var notað í kennslu í fyrsta sinn í ár. Ég er einn höfundur þess ásamt fimm öðrum háskólakennurum og sérfræðingum í bókmenntum og settum við okkur tvö markmið: annars vegar að skrifa rit sem gæti náð til 21. aldar manna, en hins vegar að taka tillit til nýrra strauma í bókmenntum og rannsóknum á þeim. Bókin er mikil að vöxtum en stutt miðað við hversu efnið er mikið, aðeins um 900 síður. Eflaust þykir einhverjum að hinu og þessu hafi verið sleppt að ósekju. Vitað var fyrirfram að þannig yrði það, alveg eins og þegar bókmenntakennari stendur í skólastofunni og þarf ævinlega að velja og hafna hvað ræða skal á 80 mínútum. Rit af þessu tagi má aldrei verða upptalning á öllu sem til er og auðvitað hljóta efnistökin að mótast að einhverju leyti af hugðarefnum höfundanna. Þess vegna skiptir miklu máli að velja þá vel.

Það sem hefur verið ánægjulegast við alla þessa vinnu er að standa með ritið í tímum í Háskólanum og finna að margir nemendur hafa lesið það til enda af áhuga og hafa fundið eitthvað í því sem leiðir þá til að lesa meira og uppgötva alla hina hlutina sem ekki var getið. Þannig eiga inngangsrit nefnilega helst að vera, hlutverk þeirra er ekki að fylla ungviðið af endanlegum sannleik heldur hvetja það til að leita sér frekari fróðleiks sjálft. Ég get vottað um það sjálfur að flest af því sem ég hef lært hef ég hvorki lært í tímum né í frásögn eldra fólks heldur með því að leita mér sjálfur fróðleiks og auðvitað einkum með lestri þess magnaða fyrirbæris sem þessa vefsíða snýst um og eru bækur. Forvitni nemenda er aflvaki alls þeirra náms en kennarinn stundum eins og veita sem reynir að beina fossinum í sem frjóastan farveg.

Previous
Previous

(Tiltölulega) óþekktur kvikmyndasnillingur

Next
Next

Síungur útgefandi