Síungur útgefandi
Þar sem þetta er aðeins vefsíða einstaklings ber mér engin skylda til að gæta hlutleysis og sé ekkert athugavert við að minnast aðeins á Hið íslenska bókmenntafélag sem er 206 ára í ár og er enn að gefa út vandaðar bækur almenningi til gagns og skemmtunar. Ég hef setið þar í fulltrúaráði síðan í ársbyrjun 2015 og verið forseti félagsins síðan 1. júlí. Nokkrar bækur koma út hjá Hinu íslenska bókmenntafélagi í ár og ég hef verið að dunda mér við að lesa tvær sem eru nýútkomnar og báðar á sviði íslenskrar menningar. Það eru Feiknstafir sem fjallar um sjálfan Grím Thomsen og síðan greinasafn Árna Sigurjónssonar, Um skáldskaparmenntina.
Bókmenntir og bókmenntarannsóknir eru sjaldan ofarlega á baugi í nútímamenningunni og allra síst eftir að fjölmiðlar hættu að mesta að fjalla um bókmenntir. Þá ber stundum á því að margir Íslendingar hafi takmarkaðan skilning á því um hvað bókmenntarannsóknir snúast – en besta leiðin til að komast að því er háskólanám í bókmenntum. Þessar tvær bækur eru hins vegar gott dæmi um að enn fara fram vandaðar bókmenntarannsóknir og áhugaverðar og vonandi verður Bókmenntafélagið enn að gefa út slík rit eftir hálfa öld.