Bókmenntavefurinn

Ég skrifaði um sjálfan mig fyrir Bókmenntavefinn fyrir nokkrum árum og datt í hug að birta það aftur á þessari síðu:

„Ferðalag mitt til útgáfu var býsna langt. Ég skrifaði sögur sem barn sem þóttu fyndnar í fjölskyldunni en aldrei hvarflaði að mér að gefa þær út. Við bræðurnir skrifuðum líka sögur saman sem ævinlega voru undir áhrifum seinustu bókar sem við höfðum lesið, auk leikrita með tugum persóna. Í menntaskóla greip mig aftur skáldlegur metnaður og þá setti ég saman epíska fjölskyldusögu í tveimur bindum og sendi til forleggjara sem afþakkaði kurteislega. Mér var bent á bókmenntafræðing sem gæti gefið góð ráð og hann sagði mér tæpitungulaust að þetta væri vond saga. Seinna velti ég því fyrir mér hvort það hefði skipt máli að ég hafði óvart nefnt hlægilega aukapersónu nafni föður hans. Dómurinn var þó eflaust réttur.

Ég gafst þó ekki upp og næstu árin setti ég saman nokkrar sögur. Engin þeirra varð að fullgerðu handriti. Allar voru margbrotnar með ótal persónum. Ein gerðist á 15. öld og þar birtust í upphafi tveir biskupar en á þeim árum var ég svo uppfullur af tilgerð að ég hafði þá alltaf með ufisloni. Aldrei urðu sögurnar neitt líkar því sem mig dreymdi um þegar ég hugleiddi þær í upphafi. Í eina setti ég speki eins og finna mátti í Íslenskri ritlist. Það var mín gæfa að útgefandinn og bókmenntafræðingurinn höfðu lamið úr mér allt sjálfstraust þannig að ekkert af þessu birtist á prenti eða mun gera það. Skársta verkið var barnasaga um flakk yfir í annan heim. Það var samið fyrir samkeppni en hlaut ekki náð fyrir augum dómnefndar. Ég fékk það til baka og þá kom í ljós að einum dómnefndarmanni var uppsigað við þágufallsmynd eins nafnsins (sem ég stend ennþá við) og var það eina krotið í handritinu.

Tíu árum síðar fékk ég góða hugmynd um skáldsögu innblásna af ferð langafa og langömmu til Kaupmannahafnar árið 1908. Efnið hafði ég kynnt mér og fannst það gott söguefni. Ég hitti marga rithöfunda og benti þeim á efnið en eins og ég veit núna er það mesta ömun fyrir höfunda þegar fólk er að benda þeim á söguefni. Þannig að á mig dæmdist að setja söguna saman sjálfur. Um svipað leyti greip mig löngun til að birta á efni stutta prósatexta sem ég hafði sett saman á bloggsíðu. Það hefði raunar aldrei hvarflað að mér að gefa textana út nema vegna þess að gamall útgefandi (nú látinn) hvatti mig til þess, einmitt sá sem hafði hafnað fyrstu bókinni.

Þannig að þessar bækur komu út árið 2008 og nú var ég orðinn rithöfundur en varð raunar líka háskólakennari sama ár og hef glímt við það síðan að margir eiga erfitt með að taka alvarlega höfunda sem einnig stunda borgaralega vinnu. Minn vinnuveitandi hefur á hinn bóginn alltaf sýnt því skilning að ég skrifi meðfram störfum enda hafa skáldsögurnar engu rænt frá mínu daglega starfi. Öðru nær.

Í raun finnst mér ég enn í námi sem höfundur. Engin bóka minna er lík þeirri næstu á undan og mér hefur fundist mikilvægt að vera laus undan öllum stimplum jafnvel þótt það geti stundum torveldað markaðsstarf. Ég hef sent frá mér smáprósa, sögulegar skáldsögur, sögur fyrir börn og ungmenni, sakamálsögur og sögur sem erfitt er að setja á merkimiða. Öll þessi form ögra mér og ég hef reynt að vinna með þau á minn eigin hátt. Jafnvel núna þegar ég hef sett saman tvær sakamálsögur um sömu persónur eru þær afar ólíkar innbyrðis bæði hvað varðar form og anda því að ég finn enga löngun í mér til að senda tvisvar frá mér svipað rit.

Ég legg ekki mikla áherslu á frumleika í vali á söguefni. Margar sögur fjalla um svipuð efni og aðrar. Þá hef ég ekki endilega ofurtrú á að rithöfundar geti fært fólki mikla speki um þjóðmál eða helstu stórviðburði fortíðarinnar. Eins og ég lít á málið er starf höfundarins einkum fólgið í efnistökunum. Það fyrsta sem ég spyr mig að er hvernig sagan sé orðuð og hvernig taktur sé í setningunum. Þar hef ég reynt að bæta mig með hverri bók. Annað sem mér finnst mikilvægt er að í persónum sögunnar finni lesendur raunverulegt fólk sem þeir geta tengt sig við. Ég reyni oftast að hafa sögurnar látlausar á yfirborði en gefandi þegar dýpra er kafað. Helst vil ég að þær batni við annan lestur. Auðvitað lesa margir sömu bók aldrei tvisvar en allar mínar bækur eru samt þannig hugsaðar. Lesendur hverfa mér aldrei úr huga. Þess vegna finnst mér mikil áskorun að skrifa öðru hvoru barnabækur. Sjálfur elskaði ég bækur á barnsaldri, las margar aftur og aftur og man þær enn í dag. Þannig lesendur þætti mér vænt um að eignast.

Eins og heyra má finnst mér ekkert unnið með því að sveipa þessa vinnu dulúð. Eflaust er eitthvað til sem heitir innblástur: sannarlega hef ég lent í því að vakna einn dag og skilja skyndilega hvernig sagan sem áður hafði vafist svo mjög fyrir mér eigi að líta út, næstum eins og hulu sé svipt frá augunum. Svona vinnur mannsheilinn væntanlega. Fyrir mér er aðaláskorunin að skapa sögu sem ég skil um hvað snýst og sem kann að höfða til einhvers úr öllum þessum fjölmörgu flugum sem ævinlega eru á sveimi í kollinum. Síðan ég gaf út Vonarstræti árið 2008 hef ég jafnan haft fjögur eða fimm áform um næstu sögu. Mörg renna út í sandinn og sagan sem að lokum kemur út er þá þriðja eða fjórða atlagan að sögunni. Þannig er þetta bara. Nokkrar á ég enn eftir og því lítil hætta á að ég verði uppiskroppa með efni næstu árin. Allt er ótryggara með lesendur en maður getur leyft sér að vona.“

Previous
Previous

Swingle singers

Next
Next

Tvöþúsundbókamaður