Swingle singers
Um daginn fór ég á stórgóða tónleika hljómsveitarinnar Íslenskir strengir ásamt Drengjakór Reykjavíkur og Graduale futuri og fannst viðeigandi að heyra Bach m.a. í flutningi barna enda eignaðist hann a.m.k. tuttugu börn. Eins og Voltaire samtíðarmaður hans sem ég skrifaði um fyrr í vikunni var Bach feykilega afkastamikill en líkt og Jane Austen sem ég hef einnig skrifað um hér var hann að vísu allkunnur á sínum tíma en ekki viðurkenndur sem eitt mesta tónskáld allra tíma fyrr en löngu síðar og átti sjálfur Felix Mendelssohn mikinn þátt í því en Bach-félagið var síðan stofnað árið 1850.
En þegar ég hlustaði á Íslenska strengi og börnin flytja Bach rifjaðist upp fyrir mér að ég kynntist tónskáldinu fyrst með hjálp plötunnar að ofan sem var til heima hjá mér í Álfheimum 62 og mamma var oft í skap fyrir en fyrsta lagið á henni var Badinerie (úr BWV 1067) sungið af fransk-bandaríska sönghópnum Swingle Singers sem fluttu lög sín með lágmarksundirleik (t.d. kontrabassa og trommu) en létu röddina túlka tónana. Auk hins bandaríska Ward Swingle (1927–2015) voru sjö franskir söngvarar í hópnum, fjórar konur og þrír karlar.
Mér fannst þetta vera klassík á sínum tíma en sjálfir flokkuðu söngvararnir þetta sem jazz sem var auðvitað tónlist foreldra mína (sem elskuðu raunar suman jazz og þoldu ekki annan). Kannski minnir mig þetta líka á að hve miklu leyti ég er barn 7. áratugarins (takið eftir hárgreiðslu söngkvennanna að ofan!). Swingle flutti síðar til Englands og stofnaði annan söngflokk sem einbeitti sér að annars konar a cappella tónlist. Þó að ég hafi á tilfinningunni að Swingle sé ekkert sérstaklega frægur lengur hafa eflaust allir heyrt Swingle-útsetningar því að þær eru vinsælar í kvikmyndum og sjónvarpi enn þann dag í dag.