Bjössi kvennagull og eitruð karlmennska eftirstríðsáranna

Ég hafði lofað sjálfum mér að skrifa grein með þessu heiti en áform mín eru talsvert viðameiri en afrekin og ef ekkert verður úr þessu dugar kannski þessi litla bloggfærsla. Eins og allir vita er „Bjössi á mjólkurbílnum“ eitt frægasta lag Hauks Morthens heitins og var feykivinsælt árið 1954 en hefur æ síðan verið áberandi í íslenskri menningu en þó e.t.v. ívið minna eftir að útvarp var gefið frjálst 1986 með alkunnum hræðilegum afleiðingum. Textinn er eftir Loft Guðmundsson (1906-1978) sem samdi m.a. Síðasta bæinn í dalnum og var fyrsti þýðandi Tinnabókanna. Í texta lagsins er fjallað um bílstjóra sem „ekur eins og ljón með aðra hönd á stýri“ og reynist kunna „á bíl og svanna tökin“.

Myndin hér að ofan tengist efni greinarinnar ekki beint en öllum má þó vera ljóst hvað getur gerst ef menn aka eins og ljón með aðra hönd á stýri. Færri vita kannski að þetta fræga íslenska dægurlag er eins og mörg önnur fræg íslensk dægurlög ítalskt, samið af tónskáldinu Vittorio Mascheroni (1895-1972), er í tónverkinu Papaveri e papere sem var frumflutt á Sanremo árið 1952 og fjallar um Pappa piccolino („pa-pa picco-lino“ verður þá „Bjöss-á mjólkur-bílnum“) en frumtextinn mun vera hörð ádeila á baktjaldamakk auðmanna. Á Íslandi nýttist sama lag í kátlegt kvæði um bílstjóra sem jafnframt var kvennagull.

En synd væri að segja að Bjössi kvennagull kæmi vel út úr breyttum viðhorfum í kjölfar #MeToo-umræðunnar. Mér var reyndar augljóst strax í bernsku að þetta væri karlrembulag. Bjössi gleymir alveg að kaupa það sem mærin biður hann um en segir bara „Þér fer svo vel að vera svo æst“ (dæmigerð yfirlýsing frá fólki sem stendur ekki við loforð sín og segir „þetta reddast“ á ósannfærandi hátt). Í kjölfarið hefst kynferðisleg áreitni hans bak við brúsapallinn og niðurstaðan er sú að hann meðhöndlar konur eins og bíla (keyrir þær áfram?) og þeim virðist eiga að líka það vel. Þetta er það sem ég myndi taka í sundur í greininni og tengja við eftirstríðsárin á Íslandi sem einkenndust af kyrrstöðu í kvenfrelsismálum sem kunnugt er.

Það eina jákvæða við þá kyrrstöðu er að tiltölulega ungt fólk eins og ég man tímana tvenna, ólst t.d. upp í samfélagi þar sem flestöllum fannst tíu karla ríkisstjórnir sjálfsagðar. Bjössi á mjólkurbílnum var líka vinsælt lag enda útvarp þess tíma fullt af lögum sem snerust um að koma sjálfumglöðum konum í skilning um stað sinn í lífinu (s.s. Nikkólína og Hver gerði Gerði). Við áttum öll að kokgleypa að Bjössi væri raunverulegt kvennagull en ekki siðblindingi sem gleymir öllu sem hann lofar og hlær svo að því, gerir lítið úr áhyggjum kærustunnar og tekur til við káfið – að ógleymdum endurteknum umferðarlagabrotum mannsins (hvað ætli hin höndin sé annars notuð í þegar hann ekur með aðra hönd á stýri?). Þetta er nánast fullkomin lýsing á hegðun margra siðblindra karlmanna á þessum tíma. Efni í mun lengri grein sem þó verður varla skrifuð af mér.

Previous
Previous

Miðillinn er merkingin

Next
Next

Swingle singers