Miðillinn er merkingin

Marshall McLuhan var ekki að tala um skyggnar konur en næstnýjasta skáldsaga mín Reimleikar fjallar aftur á móti um heim skyggnra kvenna og áhrif þess sérkennilega systralags á lögreglukonuna Kristínu sem ég hef nú skrifað fimm bækur um og vinn að þeirri sjöttu í þessum töluðum orðum. Kristín ólst upp hjá móður sinni sem var greinilega mjög slæmur uppalandi og varð meðal annars handgengin miðlum. Þetta hefur sett svip sinn á hana og Kristínu líkar illa við allt sem tengist mömmunni en hún er samt á skjön við tíðaranda ársins 2022 og neitar að vera fórnarlamb. Í raun gæti hún verið án foreldra sinna en er samt ekki laus við þau því að það er enginn hægðarleikur að losna undan valdi forfeðranna. Þegar upp koma glæpamál sem miðlar sýna áhuga þarf Kristín sem sagt að glíma enn á ný við móðurskrímslið.

Skáldsaga um miðla fjallar vitaskuld um yfirnáttúru en fyrst og fremst sem samfélagslegt fyrirbæri en skyggnilýsingar sigu hægt og rólega niður samfélagsstigann alla 20. öldina og þegar Kristín elst upp eru þær orðnar hálfgert bannyrði. Móðir Kristínar varð handgengin miðlum vegna þess að hún lenti í hræðilegri sorg og burðaðist auk heldur með eldri sektarkennd vegna frænda síns sem var þó aldrei rökrétt. Hugsanlega líka vegna þess að hún kemur úr umhverfi þar sem miðilsfundir eru eðlilegir. Þessi trú leiðir hana á fund alls konar kvenna en karlar eru lítt sýnilegir í þessum heimi sem er þó margbrotinn. Andúð Kristínar á þessum dulræna heimi er kannski ekki síst uppreisn gegn erfiðri æsku en það skapar spennu milli mæðgnanna í Reimleikum þegar hún reynir að leysa sakamál sem yfirnáttúran reynir stöðugt að troða sér inn í.

En karlamenningin er líka undir í sögunni sem sækir ýmis þemu úr Gísla sögu og fleiri fornsögum en líka verkum Hitchcocks og þekktum sönnum sakamálum 20. aldar. Síðan ég var barn hef ég stöðugt verið í minnihlutanum sem ekki trúir á kynjatvíhyggju og eðlishyggju en hún er svo sterk að mér hefur alltaf fundist ég fá litlu ráðið. Á hinn bóginn er það enn ekki fortíð að áhuga á vopnum og hernaði sé haldið að strákum og úr þessu verður eitruð karlmennska sem er annað umfjöllunarefni Reimleika. En þó að ég glími við félagsleg vandamál í öllum sögum mínum eru þær hvorki félagsfræðiritgerð né predikun. Lesandinn fær að hugsa sitt og halda með þeim sögupersónum sem viðkomandi vill enda er það styrkur bókmenntaformsins að leyfa lesendum að taka þátt í merkingarsköpuninni.

Previous
Previous

Florence Elliott

Next
Next

Bjössi kvennagull og eitruð karlmennska eftirstríðsáranna