Florence Elliott
Um daginn sá ég bókina Heimurinn þinn á bókaborðinu í Árnagarði en þessa bók tók ég margsinnis á Sólheimasafninu forðum og kynntist þar mörgum stjórnmálamönnum frá 1960-1970. Bókin var upphaflega bresk en sennilega var íslenska gerðin þýdd úr sænsku eða norsku því að þar voru margar færslur um norræn stjórnmál – raunar var einn þýðenda Sigurður Ragnarsson síðar rektor MS, mikill sómamaður og afar fróður um sögu 20. aldar.
Þið sjáið að þessi kápa æpir 1971 á mann. En þegar ég sá bókina á bókaborðinu núna löngu síðar langaði mig til að finna út hver Florence Elliott hefði verið, t.d. hvort hún var karl eða kona – eitt sinn sótti ég ráðstefnu sem skipulögð var af suður-afrískum prófessor sem hét Hyacinth en reyndist vera karlmaður. Ég komst að því að ein gerð bókarinnar er gefin út ásamt Michael Summerskill og líklega voru þau gift því að Florence (sem var kvk.) andaðist árið 2017, 88 ára gömul og hét þá Florence Summerskill. Enn veit ég ekki meira um hana enn en væntanlega voru þau hjónin bæði félags- eða sagnfræðingar.